Meginmarkmiðin eru að stuðla að friði og öryggi í heiminum með því að styðja og efla alþjóðalega samvinnu milli landa á sviði menntunar-, vísinda- og menningarmála. Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum (sem og aðrir UNESCO-skólar) þurfa að skipuleggja sérstaka viðburði og vekja athygli á ýmsum málefnum tengt heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna ár hvert.
Slíkur viðburður var m.a. haldinn í byrjun árs þegar skólinn braut upp á hefðbundna kennslu með því að láta alla nemendur skólans vinna saman að ákveðinni fræðslu tengt lýðræði. Á þeim degi fengum við heimsókn frá forsetanum Guðna Th. Jóhannessyni þar sem hann ræddi um lýðræði og svaraði spurningum frá áhugasömum nemendum. Endaði sá dagur á því að skólinn bauð upp á pizzur fyrir nemendur og starfsfólk.
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum er mjög metnaðarfullur skóli. Kennarar hafa til að mynda farið með nemendur í stökum áföngum erlendis til dýpka skilning þeirra á námsefninu og stuðlað að nýrri þekkingu nemenda á menningu og sögu annarra landa.
Við tökum einnig þátt í heimsins stærstu kennslustund sem er á vegum UNESCO en það þýðir að allir UNESCO-skólar í heiminum taka þátt að ákveðinni kennslustund. Í ár snýr kennslustundin um sjálfbærni.
Í dag fögnum við þessum degi enda er Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum stoltur aðildarfélagi UNESCO.