
Lýsing: Vélstjórnarnám skiptist í meginatriðum í sex námsstig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum uppfylltum, rétt til að fá útgefið skírteini til starfa sem vélstjóri. Þetta námsstig (þriðja) er til réttinda til að gegna stöðu vélavarðar og vélstjóra á skipum með vélarafl 750 kW og minna. Til sjós er starfssvið vélstjóra að annast rekstur og viðhald vél- og rafbúnaðar og tryggja, í samvinnu við aðra yfirmenn um borð, að rekstur skipsins fullnægi gildandi lögum og reglum, s.s. um öryggi skipa og mengunarvarnir. Véla- og tækjabúnaður skipa er mjög fjölbreyttur þar sem skip eru hönnuð til ólíkra hlutverka. Störf vélstjóra eru því víðtæk og spanna starfssvið margra starfsstétta í landi.
Markmið vélstjórnarbrautar A er að mennta þá sem hyggjast afla sér réttinda til að starfa á skipum með vélarafl minna en 750 kW og sækjast ekki eftir frekara vélstjórnarnámi. Gert er ráð fyrir að atvinnuþáttaka fram til 18 ára aldurs veiti nemanda þann grunn að hann sé fær um að takast á við nám sem skipulagt er í samræmi við þessa námsbrautarlýsingu. Réttindin fást að fullnægðum skilyrðum um siglingatíma og starfsþjálfun.
Inntökuskilyrði: Inntökuskilyrðin eru að nemandi hafi náð 18 ára aldri og hafi náð fullnægjandi námsárangri í kjarnagreinum úr grunnskóla (eða sambærilegu námi), að mati skólans. B eða hærra í stærðfræði er nauðsynlegt.
Skipulag: Námið er keyrt samhliða vélstjórn B-stigi með samtvinnaðri 4,5 mánaða starfsþjálfun samkvæmt þjálfunarbók. Námið felst bæði í bóknámi og verknámi og fer að nær öllu leyti fram í skólanum (sjá um nám og þjálfun utan skólans í kaflanum um starfsnám). Námið leiðir til alþjóðlegra vélstjórnarréttinda og er því skipulagt samkvæmt námskrám og öðrum kröfum í íslenskum lögum og reglugerðum og samþykktum Alþjóðasiglingamálstofnunarinnar (IMO), auk þess sem skólinn vinnur samkvæmt vottuðu gæðastjórnunarkerfi.
Námsmat: Námsmat er fjölbreytt og ýmsum aðferðum er beitt við að kanna og meta námsárangur í áföngum brautarinnar. Nám getur verið verkefnabundið eða hefðbundið með símati eða lokaprófum. Matsþættir eru alltaf nokkrir í hverjum áfanga og markmiðið að hafa þá sem fjölbreyttasta og beita þá skriflegum, verklegum og/eða munnlegum námsmatsaðferðum.
Starfsnám: Til að fá útgefið skírteini til að starfa sem vélstjóri þurfa nemendur að ljúka viðurkenndum öryggisfræðslunámskeiðum og hafa lokið siglingatíma. Öryggisfræðsla: Allir nemendur skulu ljúka grunnnámskeiði í öryggisfræðslu. Þeir sem sækjast eftir réttindum til starfa á farþega- og flutningaskipum skulu ennfremur hafa lokið námi í öryggisfræðslu á sviði eldvarna og björgunartækja og námskeiði í hóp- og neyðarstjórnun til starfa á farþegaskipum. Nemum skal á námstímanum standa til boða námskeið í öryggisfræðslu sem krafist er á réttindastiginu. Siglingatími: Til þess að fá útgefið atvinnuskírteini til starfa á skipum skal nemandi eftir atvikum hafa lokið siglingatíma og/eða viðurkenndri starfsþjálfun sem nánar er kveðið á um í gildandi lögum og reglugerðum um það efni. Í þessu námi er þjálfun samkvæmt þjálfunarbók hluti af náminu.
Námsframvinda: Nemendur þurfa að hafa lokið undanförum til þess að halda áfram námi í þeim greinum sem það á við.
Hæfniviðmið: Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...
- hafa öðlast ítarlega þekkingu á störfum og starfsumhverfi innan starfsgreinarinnar sem hann hefur réttindi til að gegna.
- hafa öðlast nægilega þekkingu á vél- og rafbúnaði skipa sem hann hefur réttindi til starfa á, þannig að hann geti þjónað þessum búnaði með öruggum hætti og án þess að öryggi skips eða þeirra sem um borð eru sé stefnt í hættu.
- hafa öðlast faglega þekkingu og skilning á hlutverki, uppbyggingu, getu og virkni þess vélbúnaðar sem gera má ráð fyrir að sé að finna í skipum af þeirri stærð og gerð sem hann öðlast réttindi til að starfa á.
- hafa öðlast þekkingu á takmörkunum þess búnaðar sem hann ber ábyrgð á og geta á hverjum tíma lagt raunhæft mat á ástand hans og hvenær huga þurfi að viðhaldi eða endurnýjun búnaðarins.
- geta beitt viðeigandi ráðstöfunum þegar hættuástand skapast og geta brugðist skjótt og rétt við bilunum í vél- og rafbúnaði með þeim hætti að öryggi skips sé sem best tryggt.
- geta lesið og skilið teikningar, verklýsingar og önnur gögn svo sem leiðbeiningar framleiðenda búnaðar og tækja um notkun þeirra, þjónustu við þau og daglega umsjón.
- gera sér grein fyrir mikilvægi góðra samskipta og samvinnu á vinnustað.
- geta skipulagt og stjórnað neyðarviðbrögðum í samráði við aðra yfirmenn.
Brautarlýsing:
