Reglur um meðferð heimilda

Reglur um meðferð heimilda

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum leggur mikla áherslu á vönduð vinnubrögð og heilindi í allri verkefnavinnu og öðru námsmati. Mikilvægur þáttur í vönduðum vinnubrögðum er að höfundarréttur sé virtur. Í allri verkefnavinnu er gerð sú krafa til nemenda að þeir virði höfundarétt og að öll verkefni sem nemendur skila séu þeirra eigin verk. Ávallt skal geta heimilda sem nýttar eru við verkefnavinnu og gætt að því að ávallt sé farið eftir reglum um heimildanotkun. Hvert verkefni sem nemandi skilar inn skal vera einstakt. Með því er átt við að öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan áfanga, milli áfanga eða námsbrauta, er óheimil. Höfundarverk á einnig við um verkefni nemenda og fyrrum nemenda í sama áfanga. Sama á við í hópverkefnum; verkefnið skal vera unnið af hópnum frá grunni og er allur hópurinn ábyrgur fyrir því að rétt vinnubrögð séu viðhöfð.

Ritstuldur er með öllu óheimill í námi við skólann. Ritstuldur felur í sér að nemandi hagnýtir sér í verkefnum sínum og ritun hugverk annarra án þess að láta þess getið og vísa til heimilda eftir þar til gerðum reglum. Gildir þá einu hvort um er að ræða búta úr verki eða verkið í heild. Með hugverki er átt við höfundarverk á borð við bækur, greinar, ritgerðir, aðrar ritsmíðar, myndir eða annað jafnt á prenti, tölvutæku formi eða á annars konar formi sem tilheyrir tilteknum rétthafa þess.

Viðurlög við brotum

  • Fyrsta brot: Verði nemandi uppvís að broti á ofangreindri reglur í einhverjum áfanga ræðir kennari við hann og gerir honum grein fyrir alvarleika málsins. Nemandanum er því næst veitt tækifæri til að endurvinna verk sitt og færa til betri vegar.
  • Annað brot: Verði nemandi í annað sinn uppvís að broti á ofangreindri reglu, í hvaða áfanga sem er, telst verkefnið ógilt og gefin er einkunnin 0. Brotið eru fært í athugasemdir um nemanda á Innu.
  • Ítrekuð brot á reglum skólans geta leitt til brottvísunar úr áfanga og/eða skóla.

Athugið - Brot á þessari reglu fyrnast ekki milli anna eða áfanga, brjóti nemandi til dæmis af sér í áfanga á 1. önn og aftur á 3. önn teljast það tvö brot.

Síðast uppfært: febrúar 2025