Námsframvinda
Nemendur velja áfanga á hverri önn og bera ábyrgð á skipulagi náms síns. Þó velja stjórnendur skólans áfanga fyrir nemendur á fyrstu önn þeirra í námi. Í byrjun náms gera nemendur áætlun um námsframvindu og áætluð námslok. Skrá yfir áfanga í boði er gefin út fyrir hverja önn og verða áætlanir og val nemenda að taka mið af henni. Auk þess verður nemandinn að gæta þess að brjóta ekki reglur um undanfara og einingafjölda á önn. Framboð námsáfanga tekur m.a. mið af nemendafjölda á brautum og fjárveitingum til kennslu.
Ábyrgð á námsframvindu
Nemendum er bent á að þótt aðstoðarskólameistari, ásamt námsráðgjafa og umsjónarkennurum, hafi eftirlit með námsferlum nemenda bera nemendur sjálfir ábyrgð á framvindu eigin náms og að námslok verði á þeim tíma sem stefnt er að.
Nemandi getur að hámarki verið skráður í 40 einingar á önn (samanlagt í öllum framhaldsskólum). Aðstoðarskólameistari getur veitt undanþágu frá fjölda eininga á önn. Nemandi í fullu námi skal ljúka að lágmarki 15 einingum á önn. Skólameistari getur heimilað undantekningu frá þessum reglum vegna sérstakra aðstæðna, skilgreindra námsörðugleika og veikinda.
Ljúki nemandi ekki tilskildum einingafjölda á önn er skólastjórnendum heimilt að takmarka þann fjölda eininga sem hann fær að skrá sig í á næstu önn. Nemandinn getur þurft að sækja um skólavist að nýju og er honum þá gerð grein fyrir stöðu sinni þannig að hann geti einnig sótt um skólavist í öðrum framhaldsskólum. Skólanum er ekki skylt að endurinnrita nemandann.
Lengd náms eftir brautum
Almennt geta nemendur á stúdentsbrautum búist við að ljúka námi á 6 önnum (3 árum) ef námsframvinda er eðlileg. Nemendur á Framhalsskólabrú geta búist við að ljúka námi á 3-4 önnum (1,5-2 árum) ef þeir skipta ekki yfir á aðra braut. Nemendur, sem hefja nám á Framhalsskólabrú en skipta svo yfir á stúdentsbraut, geta búist við að útskrifast á 7-8 önnum. Nemendur á starfsbraut ljúka námi á 8 önnum (4 árum). Nemendur á á iðnmeistarabraut geta búist við að klára námið á 3 önnum. Lengd á iðnnáms- og starfsnámsbrautum er mislöng eftir bæði brautum, formi náms (staðnám, dreifnám og lotubundið nám).
- Stúdentsbrautir: 6 annir (3 ár) við eðlilega námsframvindu.
- Framhalsskólabrú: 3-4 annir (1,5-2 ár), að því gefnu að nemandi skipti ekki um braut.
- Framhalsskólabrú → Stúdentsbraut: 7-8 annir.
- Starfsbraut: 8 annir (4 ár).
- Iðnmeistarabraut: 3 annir.
- Iðnnám og starfsnám: Lengd náms er breytileg eftir brautum og námsfyrirkomulagi (staðnám, dreifnám, lotubundið nám).
Reglur um fall í áfanga
Fall í áfanga þýðir að nemenda ber að endurtaka nám í áfanganum. Nemanda er leyfilegt að sitja þrívegis í sama áfanga. Falli nemandi þrisvar í sama áfanga þarf hann að sækja um undanþágu til skólameistara ef hann vill halda námi áfram. Skólameistari metur aðstæður nemandans og heimilar frekari skólavist eða hafnar.
Til að standast námsmat í áfanga þarf lágmarkseinkunnina 5. Nemanda er heimilt að útskrifast með einkunnina 4 í einum áfanga ef um lokaáfanga er að ræða. Sá áfangi gefur ekki einingar. Skilyrði er að nemandinn eigi jafnmargar eða fleiri umframeiningar á sama þrepi til að ná settum heildareiningafjölda til útskriftar.
Úrsögn úr áfanga
Frestur til að skrá sig úr áfanga rennur út að jafnaði 2 vikum frá upphafi annar. Þurfi nemandi að segja sig úr áfanga vegna sérstakra aðstæðna eftir þann tíma, þarf beiðni að berast til námsráðgjafa. Óski nemandi eftir að skrá sig úr áfanga að tveimur vikum liðnum fær viðkomandi skráð fall í áfanganum á námsferilinn sinn. Úrsögn úr áfanga er háð samþykki skólastjórnenda.
Skilyrði fyrir útskrift
Til að útskrifast þurfa nemendur að uppfylla öll skilyrði þeirrar brautar sem þeir eru skráðir á s.s einingafjölda og þrep.
Framhalsskólinn í Vestmannaeyjum brautskráir nemendur tvisvar á ári, í maí og desember. Nemandi lýkur námi í skólanum þegar hann hefur lokið ákveðnum áföngum og einingafjölda eins og tilgreint er í brautarlýsingu. Mikilvægt er að nemandi skrái sig til útskriftar á þeirri önn sem viðkomandi klárar þessi viðmið.
Námsráðgjafi yfirfer námsferil nemandans og setur saman lista yfir tilvonandi útskriftarnema. Athugið að nemandi þarf að láta vita ef hann er að taka aðra áfanga í öðrum skóla fyrir útskrift. Námsráðgjafi breytir stöðu nemenda í útskriftarefni þegar ljóst er að skilyrði til útskriftar eru uppfyllt.
Aðstoðarkólameistari fer yfir námsferla nemenda og vistar til útskriftar í Innu.
Síðast uppfært: febrúar 2025