Grunnnámið er fyrsta önnin í sérgreinum byggingargreina. Í lok grunnnámsins eiga nemendur að vera hæfari til að velja sér sérsvið innan bygginga- og mannvirkjaiðnaðar og hafa fengið faglegan grunn til að byggja áframhaldandi nám á. Lögð er áhersla á kennslu undirstöðuatriða í efnisfræði, áhalda- og tækjafræði, teikningum, verktækni og vinnuvernd. Að loknu grunnámi velja nemendur að sérhæfa sig í húsasmíði, húsgagnasmíði, málaraiðn, múraraiðn, pípulögnum eða veggfóðrun og dúklögnum.
Nám í byggingargreinum er sérnám sem leiðir til starfsréttinda og einnig er hægt að velja leiðir að háskólastigi. Sérhæft nám eftir grunnámið tekur að jafnaði 2,5 ár auk 1,5 árs starfstíma hjá meistara.
Inntökuskilyrði á brautina eru að nemendur hafi lokið kjarnagreinum grunnskóla með fullnægjandi árangri. Námsárangur í kjarnagreinum mun einnig hafa áhrif á hvaða þrep nemandinn innritast. Ef fleiri sækja um nám á brautinni en skólinn getur tekið við getur inntökuviðmið orðið hærra en lágmarkið.
Nemendur 23ja ára og eldri með starfsreynslu geta sótt um beint á fagbraut.