Sjúkraliðabraut

Lýsing: Sjúkraliðanám er 206 eininga nám með námslok á 3. hæfniþrepi. Námið skiptist í almennar greinar, heilbrigðisgreinar og nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar. Nám í sérgreinum sjúkraliðabrautar er bæði bóklegt og verklegt nám í skóla og starfsnám á heilbrigðisstofnunum. Sjúkraliðanám tekur að jafnaði 3 ár eða 6 annir. Tilgangur sjúkraliðanáms er að undirbúa nemendur undir krefjandi störf við hjúkrun, endurhæfingu og forvarnir bæði á heilbrigðisstofnunum og á heimilum fólks þar sem reynir mikið á samskiptafærni og siðferðisvitund starfsmanna. Í náminu er rík áhersla lögð á samvinnu við starfsfólk og stjórnendur í heilbrigðisþjónustu. Sjúkraliðanám getur verið góður grunnur fyrir frekara nám í heilbrigðisvísindum. Að lokinni brautskráningu frá skóla og starfsþjálfun sem felur í sér rafræna ferilbók getur nemandi sótt um löggildingu starfsheitis til Embættis landlæknis og öðlast þá réttindi til að starfa sem sjúkraliði á Íslandi. Starfsheitið sjúkraliði er lögverndað.

Inntökuskilyrði: Grunnskólapróf í samræmi við samræmt námsmat sem ráðuneytið birtir um viðmið við lok grunnskóla í almennum hluta Aðalnámsskrár grunnskóla. Gert er ráð fyrir því að nemendur hefji nám á sjúkraliðabraut á 2. þrepi í kjarnagreinum (stærðfræði, ensku og íslensku). 

Skipulag: Skipulag námsins tekur mið af hæfnikröfum sjúkraliða og þeim kröfum sem Barna og menntamálaráðuneytið setur um hæfniþrep áfanga og brauta. Nám í kjarnagreinum íslensku, ensku og stærðfræði ásamt námi í öðrum almennum greinum hefst á 1. önn. Gert er ráð fyrir í námskránni að nám í kjarnagreinum hefjist á 2. þrepi. Á annarri og þriðju önn bætast við framhaldsáfangar kjarnagreina og nám í heilbrigðisgreinum sem eru nauðsynlegir undanfarar náms í sérgreinum brautar og starfsnáms. Á 4.-6. önn eykst sérhæfing námsins ennþá frekar með námi í sérgreinum brautar og starfsnámi. Skólum er frjálst að flétta saman bóknámi og vinnustaðanámi að loknum fyrsta áfanga í bóklegri og verklegri hjúkrun samkvæmt skólanámskrá. Þannig getur vinnustaðanám farið fram á stofnunum samhliða bóknámi eða sem sérstök verkleg önn á námstíma. Athugið að ætlast er til að nemendur séu orðnir 18 ára við upphaf vinnustaðanáms. 

Starfsþjálfun: Starfsnám skiptist í vinnustaðanám og starfsþjálfun sem bæði fara fram á heilbrigðisstofnunum. Skólinn gerir samkomulag við viðkomandi stofnanir og skipuleggur námið í samræmi við hæfniviðmið sjúkraliðabrautar. Vinnustaðanám er 24 eininga nám þar sem nemandi fær þjálfun undir leiðsögn sjúkraliða og deildarstjóra. Áhersla er lögð á að þjálfa færni við raunverulegar aðstæður, efla sjálfstæði og ábyrgð í starfi. Nemandi setur sér markmið í upphafi námsins og vinnur samhliða að hæfniviðmiðum í rafrænni ferilbók sem fylgir honum allan námstímann. Ferilbókin er hluti af námsmati og geymir lýsingu á verkefnum og framvindu námsins. Starfsþjálfun er 27 eininga verkleg þjálfun sem fer einnig fram á heilbrigðisstofnunum og stendur yfir í 16 vikur. Hún miðar að því að nemandi þjálfist í störfum sjúkraliða, kynnist vaktaskipulagi og öðlist dýpri innsýn í hjúkrunarstarf. Markmið eru sett í samvinnu við deildarstjóra og rafræn ferilbók notuð til skráningar og mats. Umsjónarkennari fylgist með framvindu og metur í samstarfi við leiðbeinanda hvort nemandi hafi staðist verklega þjálfun.

Námsmat: Með námsmati er kannað að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér þau markmið sem sett eru í viðkomandi áföngum. Námsmat skal vera fjölbreytt. Í upphafi hvers skólaárs skal nemendum kynnt kennsluáætlun og námsmarkmið svo og tilhögun námsmats hvers áfanga. Æskilegt er að í námsmati felist leiðsögn til nemenda um hvernig þeir geti með árangursríkum hætti hagað námi sínu. Hver skóli setur sér reglur um námsmat og birtir í skólanámskrá.

Námsframvinda: Nemendur þurfa að hafa lokið undanförum til þess að halda áfram námi í hverri grein þar sem það á við. Við það er miðað að sjúkraliðanám taki að jafnaði sex annir.

Hæfniviðmið:  Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • hagnýta sérhæfða þekkingu og leikni í hjúkrunarfræði og heilbrigðisgreinum til að takast á við viðfangsefni sjúkraliðastarfsins
  • forgangsraða viðfangsefnum og greina hvaða hjúkrunarmeðferðir eigi við hverju sinni samkvæmt viðurkenndum flokkunarkerfum og skráningu í hjúkrunarfræði
  • beita, rökstyðja og ígrunda þær hjúkrunarmeðferðir sem hann framfylgir samkvæmt hjúkrunaráætlun hverju sinni
  • beita innsæi, gagnrýnni og skapandi hugsun við lausn hjúkrunarviðfangsefna
  • sýna faglega umhyggju gagnvart skjólstæðingum
  • miðla þekkingu og upplýsingum til skjólstæðinga, aðstandenda og samstarfsfólks
  • nýta samskiptafærni við margvíslegar aðstæður og tjá eigin hugmyndir og skoðanir
  • nýta tölvukunnáttu við upplýsingaleit, varðveislu og skráningu upplýsinga ásamt mati á faglegum upplýsingum
  • taka þátt í þverfaglegu samstarfi og koma á framfæri sérhæfðri þekkingu sem við á hverju sinni
  • vinna eftir gæðaviðmiðum og reglum um vinnuvernd
  • starfa eftir siðareglum og sýna siðferðisvitund, fordómaleysi, umbyrðarlyndi og víðsýni í störfum sínum
  • vinna að eigin starfsþróun og tileinka sér nýjungar í starfi.