Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum fylgir viðmiðum Háskóla Íslands um gervigreind. Þau viðmið má kynna sér á upplýsingasíðu HÍ um gervigreind: Gervigreind | Nemandi (hi.is).
Allar reglur sem gilt hafa til þessa í FÍV um notkun hjálpartækja eða búnaðar í námi, verkefnavinnu og prófum gilda einnig um notkun gervigreindar. Fylgja skal reglum skólans varðandi notkun heimilda.
Almennt um notkun gervigreindar
- Heimildanotkun: Allar reglur sem gilda um notkun heimilda í námi eiga einnig við um gervigreind. Nemendur skulu vísa til heimilda samkvæmt viðurkenndum aðferðum skólans. Ákveðnar reglur gilda um það hvernig á að vísa til efnis sem gervigreindin býr til. Athugið að hvert svar sem gervigreindarspjall býr til er einstakt og ekki hægt að vísa til þess eins og annarra heimilda. Þess vegna þarf að vísa til þess eins og um munnlega heimild væri að ræða. Notkun gervigreindar skal uppfylla sömu viðmið sem gilda innan skólans um notkun á hugverkum annarra. Notkun gervigreindar í tilvikum þegar slíkt hefur ekki verið heimilað af kennara felur í sér brot á reglum skólans og getur haft í för með sér agaviðurlög.
-
Fylgja skal fyrirmælum kennara: Nemendur skulu fylgja fyrirmælum kennara um notkun gervigreindar við lausn verkefna. Ef vafi leikur á um leyfilega notkun skal leita ráða hjá viðkomandi kennara.
-
Upplýsingagjöf: Þegar gervigreind er notuð í verkefnum skal nemandi gera grein fyrir því hvernig hún var notuð og hvernig áreiðanleiki gagna var staðfestur. Ávallt skal fylgja viðurkenndum aðferðum um frágang og notkun heimilda skv. APA staðlinum.
Nemendur eru hvattir til þess að kynna sér þessi viðmið og tileinka sér þau við notkun gervigreindar í námi. Kennarar FÍV munu beita sambærilegum viðmiðum við yfirferð á verkefnum og hálpa nemendum að átta sig á því hvernig er best að nálgast gervigreindina sem hjálpartæki.
Ýmislegt gagnlegt um gervigreind
- Gervigreind, eða Artificial Intelligence (AI), er tækni sem getur líkt eftir mannlegri greind. Í því felst að tæknin er þjálfuð til að læra, túlka og vinna að verkefnum sem yfirleitt krefjast mannlegrar hugsunar. Gervigreind er að finna í mörgum tækjum sem við notum daglega, t.d. í símum, leitarvélum og fjölda annarra forrita. Þróun gervigreindar er hröð og aðgengi almennings hefur aukist. Þessi þróun hefur leitt til nýrra áskorana í skólasamfélaginu, þar sem kennarar og nemendur verða að aðlagast þessari nýjung í námi og kennslu.
- Þú getur notað gervigreindarspjall líkt og snjallan námsfélaga; spurt út í námsefnið, látið útskýra eitthvað skref fyrir skref, beðið um skilgreiningar á hugtökum, fengið einfalda útskýringu á flóknu efni eða spjallað almennt um námsefnið.
- Ef þú hefur heimild kennara til að nota gervigreind í verkefnavinnu geturðu t.d. beðið gervigreindarspjall um endurgjöf eða mótrök við þinni rökfærslu, spurt út í eða fengið upplýsingar um eitthvað sem tengist efni verkefnisins og fengið hugmyndir um fleira sem gæti átt heima í verkefni þínu.
- Að láta gervigreindartól eins og ChatGPT, Bard, Copilot að leysa fyrir sig verkefni eða hluta verkefnis, er ekki frábrugðið því að biðja annan einstakling um það. Því er mikilvægt að nemendur fylgi fyrirmælum kennara um leyfileg hjálpagögn í verkefnavinnu og próftöku.
- Mikilvægt er að hafa í huga að gervigreind getur búið til texta sem lítur út fyrir að vera trúverðugur en byggist ekki á staðreyndum. Til eru ótal dæmi um að upplýsingar frá gervigreind séu ónákvæmar og að heimildir sem vísað er til séu tilbúningur. Þess vegna er mikilvægt fyrir nemendur að beita gagnrýnni hugsun og að athuga vel áreiðanleika þess sem gervigreindin gefur upp. Þar að auki er mikilvægt að sannreyna réttmæti allra upplýsinga sem notaðar eru í náminu, óháð því hvaðan þær koma.
- Gervigreind getur verið menningarlega blind og hlutdræg. Ef þú þekkir ekki hvernig gervigreindin vinnur og hvaðan upplýsingarnar sem hún skilar þér koma, getur þú ekki treyst því að raddir og sjónarmið allra séu hluti af niðurstöðunni.
- Mikilvægasti hluti náms er að geta beitt þeim aðferðum og hugtökum sem unnið er með í áföngunum þínum. Gervigreindin getur hjálpað þér við það, en það er mikilvægt að hún geri það ekki fyrir þig.