
Lýsing: Námið er ætlað að veita leiðbeinendum sem starfa við hlið og undir stjórn leikskólakennara starfstengda menntun. Námið veitir þekkingu og færni til að starfa með börnum í námi og leik. Áhersla er lögð á uppeldisfræði, sálfræði, listsköpun og notkun leikja.
Starf leikskólaliða snýst um umönnun, uppeldi og menntun leikskólabarna í samræmi við markmið aðalnámskrár fyrir leikskóla og einstakar skólanámskrár. Þeir taka þátt í daglegu starfi leikskóla og sinna fjölbreyttum verkefnum við að leiðbeina börnum við leik og störf og sinna daglegri umgengni og umsjón með leik- og vinnusvæðum, tækjum og búnaði. Leikskólaliðar sinna ýmsum kennslutengdum verkefnum, styðja við börn í leik og námi, annast öryggi þeirra og heilbrigði, sýna félagslegan stuðning þegar við á, aðstoða við daglegar athafnir, stuðla að jákvæðu uppeldis- og námsumhverfi, leggja til hagnýtar lausnir við bekkjarstjórnun, taka þátt í samvinnu heimilis og skóla og styðja við skipulag og framkvæmd leikskólastarfs.
Leikskólaliðar koma að vinnu með börnum sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda til að styrkja ákveðna hegðun eða auka færni þeirra og sjálfstæði. Þetta gera þeir í samráði við og undir stjórn annars fagfólks leikskóla og því getur starf leikskólaliða haft í för með sér mikil samskipti og samstarf innan leikskóla og við foreldra þar sem upplýsingum um einstök börn er miðlað.
Skipulag: Námsbraut fyrir leikskólaliða er skipulögð sem fimm anna nám. Á síðustu tveimur önnunum sækja nemendur starfsþjálfunaráfangar sem meðal annars fara fram í formi vinnustaðanáms. Námsbrautin samanstendur af 26 áföngum sem samtals eru 120 einingar. Boðið er upp á námið í lotnubundnu dreifnámi sem sett er upp þannig að einn áfangi er tekinn fyrir í einu.
Inntökuskilyrði: Til þess að geta hafið nám á leikskólaliðabraut þurfa nemendur að hafa lokið námsmarkmiðum grunnskóla með lágmarksárangri. Í stærðfræði, íslensku og ensku skulu nemendur hafa hlotið einkunnina C eða hærri.
Námsmat: Á leikskólaliðabraut er leitast við að mynda sterka tengingu milli námsmats og kennsluhátta og að gera námsmat eins samofið náminu og kostur er. Tilgangur námsmats er tvíþættur: Annars vegar að kanna að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér þau viðmið um þekkingu, leikni og hæfni sem sett eru í einstökum námsáföngum en hins vegar gagnast matið nemanda við að meta stöðu sína og gengi í námi. Umfang þess er að jafnaði í samræmi við umfang náms í viðkomandi áfanga.
Starfsnám: Vinnustaðanám er mikilvægur þáttur alls náms á leikskólaliðabraut. Markmið náms á vettvangi er að gera nemanda kleyft að auka hæfni sína með því að hagnýta þá þekkingu og leikni sem hann hefur öðlast í námi sínu innan veggja skólans. Því skal vinnustaðanám taka tillit til viðmiða leikskólaliðabrautar um þekkingu, leikni og hæfni. Nánari grein er gerð fyrir inntaki og sérstöðu vinnustaðanáms í áfangalýsingum (VAPÓ2VN15 og VAPÓ3FR05).
Námsframvinda: Til þess að nemandi standist áfanga þarf hann að hljóta einkunnina 5,0
Hæfniviðmið: Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...
- eiga góð samskipti við börn, foreldra og starfsfólk leikskóla og leysa úr ágreiningi.
- gera sér grein fyrir eigin styrk- og veikleikum í samskiptum við börn, foreldra og starfsfólk leikskóla.
- vera börnum góð fyrirmynd og hlúa að þeim andlega og líkamlega.
- útskýra hvernig aðalnámskrá leikskóla og skólanámskrár eru notaðar í leikskólastarfi.
- vinna faglega að verkefnum tengdum kennslu undir stjórn leikskólakennara.
- tjá sig um einföld fagleg atriði við annað starfsfólk leikskóla og foreldra leikskólabarna.
- sinna umönnun, uppeldi og menntun barna sem þurfa á sérstökum stuðningi að halda og þekkja notkun sérkennsluáætlana.
- tjá sig á einfaldan og skýran hátt á erlendu tungumáli.
- veita fyrstu hjálp ef slys eða óhöpp verða á vinnustað.
- vinna samkvæmt lögum og reglugerðum sem starfið byggist á.
- bera virðingu fyrir grundvallarreglum starfsumhverfis, sýna siðgæði og virða trúnað.
- eiga í fagleg samskipti við ólíkar starfsstéttir.
- tjá skoðanir sínar á ábyrgan og gagnrýninn hátt.
- vera meðvitaður um mikilvægi heilbrigðis og öryggis á vinnustað.