
Lýsing: Pípulagningamaður býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt og leiðbeina öðrum, þekkir ábyrgð sína, siðferðilega stöðu og getur lagt mat á eigin vinnu. Hann þekkir helstu eiginleika og verkan efna og tækja og getur valið þau eftir verkefnum. Pípulagningamaður getur lagt vatnshitakerfi og neysluvatnskerfi innanhúss og ýmis sérhæfð lagnakerfi, lagt frárennsliskerfi innanhúss og í jörðu, sett upp og tengt hreinlætis- og heimilistæki og sett upp og stillt búnað í tækjaklefum. Pípulagningamaður getur annast viðhald og viðgerðir á lagnakerfum og búnaði tengdum þeim. Hann getur leiðbeint húseigendum um val á efnum í nýbyggingum og við viðhald. Pípulagnir er löggilt iðngrein.
Inntökuskilyrði: Grunnskólapróf. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í kjarnagreinum þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla.
Skipulag og starfsþjálfun: Áætlaður námstími er 4 ár. Fyrsta önnin felst í aðfararnámi byggingagreina og er sameiginlegur grunnur þeirra, þ.e. húsasmíði, húsgagnasmíði, málaraiðn, múrsmíði, pípulagningar og dúkalögn. Næstu þrjár annir innihalda faggreinar í pípulögnum, auk kjarnagreina sé þeim ólokið. Námið felst í bóknámi og verknámi í skóla og starfsþjálfun á vinnustað. Nemendur geta einnig stefnt að stúdentsprófi samhliða námi. Starfsþjálfun á vinnustað fer fram hjá fyrirtæki/iðnmeistara og miðast við samkvæmt hæfnikröfur ferilbókar. Starfsþjálfun á vinnustað er mikilvægur hluti náms og miðar að því að búa nemendur undir að standast kröfur greinarinnar sem eru tilgreindar í hæfniviðmiðum námsbrautarinnar. Starfsþjálfun á vinnustað er 96 vikur eða 160 einingar og fer fram á tímabilum sem nemandi ákveður í samráði við sinn iðnmeistara að henti til að vinna samningstímann. Tilgangur starfsþjálfunar er að nemandinn þjálfi sem best þá færni sem hann tileinkaði sér í skólanáminu og bæti við þeim verkþáttum sem skólinn hefur ekki aðstöðu til.Náminu lýkur með burtfararprófi úr framhaldsskóla þegar starfsþjálfun
Námsmat: Tilgangur námsmats er meðal annars að kanna að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér markmið sem sett eru í viðkomandi áföngum. Námsmat fer fram jafnt og þétt á meðan námi stendur og byggir á viðurkenndum hugmyndum um leiðsagnarmat og símat. Dæmi um námsmat eru verkefni af ýmsu tagi sem nemendur leysa einir eða í samvinnu við aðra og skrifleg eða verkleg próf sem lögð eru fyrir nemendur.
Hæfniviðmið: Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...
- lesa bygginganefndar- og deiliteikningar af einstökum húshlutum og frágangi einstakra húshluta og verkþátta.
- hanna og útfæra hita-, vatns- og frárennslislagnir og teikna upp deililausnir og frágang.
- færa út mælipunkta sem afmarkast af staðsetningu húss til að staðsetja og afsetja hæðir fyrir frárennslislagnir og brunna.
- leggja vatnshitakerfi innanhúss s.s. ofnakerfi og gólfhitalagnir, setja upp stýrikerfi, þrýstiprófa og gangsetja hitakerfi og samhæfa virkni þeirra.
- leggja neysluvatnskerfi fyrir heitt og kalt vatn innanhúss og setja upp og tengja hreinlætis- og heimilistæki.
- leggja og þrýstiprófa frárennsliskerfi innanhúss og í jörðu og tengir lagnakerfi við veitukerfi.
- setja upp og stilla búnað í tækjaklefum.
- setja upp og annast sérhæfð lagnakerfi, s.s. gas, þrýstilofts- og súrefniskerfi, varmadælur og kælirafta.
- leggja snjóbræðslukerfi og setja niður og tenga stofnlagnir og deilirör.
- leggja vatnsúða- og slökkvikerfi með viðeigandi stjórnbúnaði og geta annast umsjón þeirra.
- leggja að og tengja við tæki í loftræstikerfum.
- setja upp og tengja rotþrær.
- meta þörf og annast viðhald og viðgerðir á lagnakerfum og búnaði þeim tengdum.
- þekkja og fara eftir lögum og reglum um verndun og friðun húsa og þekkir gamlar byggingarhefðir og handverk.
- velja aðferðir, verkferla, verkfæri og efni sem henta hverju sinni. Hann þekkir eiginleika efna og álagskrafta sem þeim tengjast.
- þekkja og fara eftir lögum og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum.
- fylgja öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir vinnustaði, m.a. með notkun viðeigandi öryggisbúnaðar og vera meðvitaður um þrif og nauðsyn þess að ganga vel um vinnustað sinn.
- þekkja grundvallatriði sjálfbærni og umhverfisverndar og fylgja vistvænum viðmiðum við efnisval og framkvæmdir og reglum um meðferð og notkun hættulegra efna.
- vinna sjálfstætt, vera meðvitaður um faglega og siðferðilega ábyrgð sína og geta lagt mat á eigin vinnu.
- þekkja gæðakröfur og gæðakerfi og vera fær um að leiðbeina öðrum, s.s. iðnnemum og neytendum um fagleg verkefni.
- lýsa ábyrgðarsviði iðnmeistara og hlutverki þeirra.
- þekkja ferli frá tilboðsgerð til afhendingar.
- hafa innsýn í rekstur og skipulag fyrirtækja, uppbyggingu gæðahandbókar og þekkja mismunandi launakerfi.