Skipstjórn B (réttindi að 45 metrum)
Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu, færni og hæfni sem krafist er til skipstjórnarréttinda á fiskiskipum styttri en 45 metrar í innanlandssiglingum og á flutninga- og farþegaskipum að 500 BT í strandsiglingum. Réttindin fást að fullnægðum skilyrðum um siglingatíma, starfsþjálfun og öryggisfræðslu .
Skipstjórnarnám skiptist í meginatriðum í sjö námsstig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum uppfylltum, rétt til að fá útgefið skírteini til starfa sem skipstjórnarmaður. Með því að ljúka Skipstjórn B hefur þú lokið fimm fyrstu námsstigum námsins. Námið er 129 einingar.
Skipstjóri fer með æðsta vald um borð í skipi. Yfirstýrimaður er staðgengill skipstjóra og fer með yfirstjórn skips í forföllum hans. Skipstjóri skal sjá um að skip hans sé öruggt, að gengið sé tryggilega frá farmi og að öryggi allra þeirra sem um borð eru, áhafnar og farþega, sé tryggt. Skipstjóri sér auk þess um að skip sé rétt búið tækjum, búnaði, vistum og varahlutum vegna fyrirhugaðrar siglingar. Skipstjóri tryggir að reglum um hleðslu og stöðugleika sé fullnægt og að gengið sé frá farmi með þeim hætti að hann geti ekki kastast til eða skemmst meðan á ferð skipsins stendur. Skipstjóri setur menn til þeirra starfa sem þeir eru ráðnir til og mælir fyrir um verklag og aðgerðir við afbrigðilegar aðstæður og í neyð.
Nánar um áfanga á námsbrautinni.
Hægt er að sækja um með því að smella hér.