Skipstjórnarnám B - stig

Lýsing: Markmið námsins er að nemendur öðlist þekkingu, færni og hæfni sem krafist er til skipstjórnarréttinda á fiskiskipum styttri en 45 metrar í innanlandssiglingum og á flutninga- og farþegaskipum að 500 BT í strandsiglingum. Réttindin fást að fullnægðum skilyrðum um siglingatíma, starfsþjálfun og öryggisfræðslu .

Skipstjórnarnám skiptist í meginatriðum í sjö námsstig sem að námi loknu veita hvert um sig, að öðrum skilyrðum uppfylltum, rétt til að fá útgefið skírteini til starfa sem skipstjórnarmaður. Með því að ljúka Skipstjórn B hefur þú lokið fimm fyrstu námsstigunum. Námið er 129 einingar. 

Skipstjóri fer með æðsta vald um borð í skipi. Yfirstýrimaður er staðgengill skipstjóra og fer með yfirstjórn skips í forföllum hans. Skipstjóri skal sjá um að skip hans sé öruggt, að gengið sé tryggilega frá farmi og að öryggi allra þeirra sem um borð eru, áhafnar og farþega, sé tryggt. Skipstjóri sér auk þess um að skip sé rétt búið tækjum, búnaði, vistum og varahlutum vegna fyrirhugaðrar siglingar. Skipstjóri tryggir að reglum um hleðslu og stöðugleika sé fullnægt og að gengið sé frá farmi með þeim hætti að hann geti ekki kastast til eða skemmst meðan á ferð skipsins stendur. Skipstjóri setur menn til þeirra starfa sem þeir eru ráðnir til og mælir fyrir um verklag og aðgerðir við afbrigðilegar aðstæður og í neyð.

Inntökuskilyrði: Nemandi hafi náð fullnægjandi námsárangri í kjarnagreinum úr grunnskóla eða sambærilegu námi. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í dönsku, ensku, íslensku og stærðfræði þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla eða að hafa lokið fyrsta þreps áföngum í þessum greinum.

Námsmat: Námsmat er fjölbreytt og ýmsum aðferðum er beitt við að kanna og meta námsárangur í áföngum brautarinnar. Nám getur verið verkefnabundið eða hefðbundið með símati eða lokaprófum. Matsþættir eru alltaf nokkrir í hverjum áfanga og markmiðið að hafa þá sem fjölbreyttasta og beita þá skriflegum, verklegum og/eða munnlegum námsmatsaðferðum.

Hæfniviðmið:  Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • Meginmarkmið náms á skipstjórnarbrautum er að veita nemendum nauðsynlega þekkingu, færni og hæfni svo þeir geti, eftir tilskilda þjálfun og reynslu á vettvangi, haft með höndum örugga stjórn á skipi við allar fyrirsjáanlegar umhverfisaðstæður.
  • Skipstjórnarmaður með réttindi A (til að stjórna skipi allt að 24 metrum) er einstaklingur með faglega þekkingu og færni sem þarf til að stjórna skipi af þessari stærð. Hæfni til að meta veðurfarslegar aðstæður og þær hættur sem skapast geta og tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Hann ber ábyrgð á stjórn skipsins, veiðum, veiðarfærum og áhöfn.
  • Skipstjórnarmaður með réttindi B (til að stjórna skipi allt að 45 metrum) er einstaklingur með faglega þekkingu og færni sem þarf til að stjórna skipi af þessari stærð. Hæfni til að meta veðurfarslegar aðstæður og þær hættur sem skapast geta og tekið sjálfstæðar ákvarðanir. Hann ber ábyrgð á siglingu skipsins, valinni siglingaleið sem hann á að hafa þekkingu til að velja, stjórnun á mannskap og þekkingu á öryggisbúnaði skip sins og neyðaráætlun. Hann á að hafa þekkingu til veiða og vinnslu sjávarafla. Einstaklingur með þessi réttindi hefur einnig réttindi til fólksflutninga á hafi á skipum allt að 500BT og á að hafa þekkingu og hæfni til að bera slíka ábyrgð.