Heimildaleit og ritgerðasmíð

Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum leggur áherslu á að nemendur beri virðingu fyrir heimildum. Ritstuldur er með öllu óheimill í námi við skólann. Ritstuldur felur í sér að nemandi hagnýtir sér í verkefnum sínum og ritun hugverk annarra án þess að láta þess getið og vísa til heimilda eftir þar til gerðum reglum. Gildir þá einu hvort um er að ræða búta úr verki eða verkið í heild. Með hugverki er átt við höfundarverk á borð við bækur, greinar, ritgerðir, aðrar ritsmíðar, myndir eða annað jafnt á prenti, tölvutæku formi eða á annars konar formi sem tilheyrir tilteknum rétthafa þess.

Í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum er stuðst við APA-heimildaskráningarkerfið.
Eftirfarandi síður gefa upplýsingar um skráningu heimilda í APA kerfinu. Þarna má finna allar nauðsynlegar upplýsingar um hvernig skrá má ólíkar heimildir.

Mikilvægt er að nota leiðréttingarforrit til að leiðrétta stafsetningu og innsláttarvillur. Íslenski villupúkinn sem fylgir Office 365 leyfum nemenda er mikilvægur í allri ritvinnslu. Á Innu er hægt að finna leiðbeiningar um hvernig setja á villupúkann upp í Office 365 forritunum. Skrambi er einnig gott villuleitarforrit sem Stofnun Árna Magnússonar sér um.

Við notkun heimilda er mikilvægt að átta sig á áreiðanleika þeirra, á þetta sérstaklega við um heimildir af internetinu og þeim sem fengin eru með gervigreindarforritum.

Skólinn notar Turnitin.Turnitin er hugbúnaður sem býður upp á fjölbreytt hjálpartæki í kennslu, þar á meðal sérstaka ritstuldarvörn. Kennarar geta með forritinu kannað frumleika texta og rétta heimildanotkun í þeim verkefnum sem nemendur skila inn, þar með talið notkun gervigreindarforrita.

Í Office word er hægt að velja heimildaskráningarleiðir. Hér er myndband sem sýnir hvernig vinna má heimildir í word.

 

 

Uppfært febrúar 2025