Múraraiðn

Lýsing: Múrari býr yfir hæfni til að vinna sjálf­stætt og leiðbeina öðrum, þekkir ábyrgð sína, siðferðilega stöðu og getur lagt mat á eigin vinnu. Múrari þekkir öll helstu efni sem notuð eru við múr­verk úti og inni. Múrari getur skipu­lagt vinnu við jarðvegs­fyll­ingar í mann­virkja­grunnum, lagt steypustyrkt­ar­járn og bendinet í stein­steypu­virki, annast blöndun og niðurlagn­ingu stein­steypu, hlaðið úr steini og veggja­ein­ingum, múrhúðað utan og inn­an­húss, lagt flísar inn­an­húss og utan, lagt mat á, valið efni og gert við múr- og steypu­skemmdir, leiðbeint hús­eig­endum um val og á efni til nýbygg­inga og viðhalds. Múr­araiðn er lög­gilt iðngrein.

Inntökuskilyrði:Grunnskólapróf. Til að hefja nám á öðru hæfniþrepi í kjarnagreinum þarf nemandi að hafa náð hæfnieinkunn B við lok grunnskóla. 

Námsmat: Tilgangur námsmats er meðal annars að kanna að hve miklu leyti nemandi hefur tileinkað sér markmið sem sett eru í viðkomandi áföngum. Námsmat fer fram jafnt og þétt á meðan námi stendur og byggir á viðurkenndum hugmyndum um leiðsagnarmat og símat. Dæmi um námsmat eru verkefni af ýmsu tagi sem nemendur leysa einir eða í samvinnu við aðra og skrifleg eða verkleg próf sem lögð eru fyrir nemendur.

Starfsþjálfun: Starfsþjálfun á vinnustað er mikilvægur hluti náms og miðar að því að búa nemendur undir að standast kröfur greinarinnar. Starfsþjálfun á vinnustað fer fram hjá fyrirtæki/iðnmeistara og miðast við hæfnikröfur ferilbókar. Almennt er miðað við að nemendur hafi lokið starfsþjálfun áður en lokaönn hefst. 

Hæfniviðmið: Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...

  • lesa bygginganefndar-, burðarvirkja- og deiliteikningar af einstökum húshlutum og frágangi einstakra húshluta og verkþátta. Hann færir út mælipunkta, staðsetur hús, afsetur hæðir, teiknar upp deililausnir og frágang s.s. á gluggum og hurðum og hefur fengið þjálfun í notkun helstu mælitækja.
  • sjá um burðar- og drenfyllingar og þjöppun í mannvirkjagrunnum og leggur steypustyrktarjárn og bendinet í steinsteypuvirki. Hann þekkir grunnatriði í burðarþolsfræði.
  • blanda og leggja steinsteypu með ýmsum aðferðum s.s. laser, víbrasleða, víbrator eða algengum hjálpartækjum og hafa góða þekkingu á steypugöllum og steypuskemmdum.
  • annast uppsetningu forsteyptra húseininga og einangra hús og húshluta. Hann mótar gólf með steinsteypu, hefðbundnum sementsefnum eða flotsparsli. Hann leggur í gólf og stiga hefðbundna gólfaílögn, terrassólögn, steinteppi og epoxýgólf og hann leggur flísar, mósaík og náttúrustein, bæði innan- og utanhúss.
  • múr- og þunnhúða veggi og loft ýmist með hefðbundnum sementsefnum, múrkerfum, akrýlmúr, gifshúðun, sandspartli eða steiningu. Hann hleður úr milliveggjaplötum og milliveggjaeiningum, glersteini, plastkubbum og hleðslusteini og hann hleður bæði opin og lokuð eldstæði.
  • þekkja lögmál og fara eftir reglum um hljóðvist, eldvarnir, varmaeinangrun og raka- og vindvarnir mannvirkja.
  • meta þörf og annast viðhald vegna múr- og steypuskemmda. Þekkir afleiðingar raka, myglu og helstu tegunda fúa. Hann þekkir lög og reglur um verndun og friðun húsa og þekkir gamlar byggingarhefðir og handverk.
  • velja aðferðir, verkferla, verkfæri og efni sem hentar hverju sinni. Hann þekkir eiginleika efna og álagskrafta sem þeim tengjast.
  • þekkja og fara eftir lögum og reglum um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum. Hann fylgir öryggis- og heilbrigðisáætlun fyrir vinnustaði, m.a. með notkun viðeigandi öryggisbúnaðar og er meðvitaður um þrif og nauðsyn þess að ganga vel um vinnustað sinn.
  • þekkja grundvallatriði sjálfbærni og umhverfisverndar og fylgja vistvænum viðmiðum við efnisval og framkvæmdir og reglum um meðferð og notkun hættulegra efna.
  • búa yfir hæfni til að vinna sjálfstætt, vera meðvitaður um faglega og siðferðislega ábyrgð sína og geta lagt mat á eigin vinnu. Hann þekkir gæðakröfur og gæðakerfi og er fær um að leiðbeina öðrum, s.s. iðnnemum og neytendum, um fagleg verkefni.
  • geta lýst ábyrgðarsviði iðnmeistara og hlutverki þeirra. Hann þekkir ferli frá tilboðsgerð til afhendingar. Hann hefur innsýn í rekstur og skipulag fyrirtækja, uppbyggingu gæðahandbókar og þekkir mismunandi launakerfi.
 

 

Nánari upplýsingar á námskrá.is