
Lýsing: Störf rafiðnaðarmanna eru margvísleg. Allt frá því að leggja háspennulínur til þess að setja saman örmerki fyrir dýr. Rafvirkjar vinna mjög fjölbreytt störf í rafiðngeiranum. Þeir leggja rafmagn í nýbyggingar, setja upp rafmagnstöflur, dósir, tengla og rofa og lýsingu ásamt netkerfum. Þar sem tölvustýrð kerfi eru forrita þeir jafnframt kerfin. Rafvirkjar vinna mikið í iðnaði við rafvélar og stýringar, bæði við uppsetningar og viðhald.
Markmið rafvirkjabrautar er að búa nemendur undir að geta starfað sjálfstætt við almenn störf rafvirkja. Að loknu námi eiga nemendur að þekkja og kunna að vinna með helsta tækjabúnaði sem notaður er af rafvirkjum, geta lagt rafmagn í byggingar, unnið við stýringar og rafvélar. Nemendur verða færir um að starfa við framleiðslu og dreifingu raforku. Rafvirki býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt, veita ráðgjöf, gera ítarlegar tíma- og kostnaðaráætlanir sem og skila sinni vinnu í samræmi við væntingar. Hann hefur djúpan skilning á þeim búnaði, verkferlum og fræðum sem snúa að hans vinnu. Hann getur viðað að sér aukinni þekkingu í samræmi við þau verkefni sem fyrir liggja með því að nýta sér miðla og upplýsingar sem snúa að faginu og notað hina auknu þekkingu við störf sín.
Inntökuskilyrði: Nemendur sem lokið hafa grunndeild rafiðna geta sótt um á rafvirkjabraut. Samhliða námi hefja nemendur samningsleið sem felur í sér störf í umsjón meistara. Meistari og nemi votta hæfniþrep sem áskilin eru í rafrænni ferilbók. Að lokinni útskrift og ferilbók öðlast nemandinn rétt á að fara í sveinspróf.
Skipulag: Rafvirkjanám er starfsnám sem lýkur á þriðja hæfniþrepi og er í heildina 260 einingar. Nám í rafvirkjun byrjar á grunnnámi rafiðna sem er alls 120 einingar og raðast á 4-5 annir. Starfþjálfun á vinnustað jafngildir 80 einingum. Námið er að mestu fagbóklegt og verklegt og kennt í verkefnastýrðu námi.
Hæfniviðmið: Að loknu námi skal nemandi hafa hæfni til að ...
- vera fær um að starfa við framleiðslu og dreifingu raforku.
- geta unnið við raflagnir eftir stöðlum og fyrirmælum reglugerða.
- geta annast eftirlit með þeim raflögnum og búnaði er hann starfar við.
- geta lagt raflagnir í nýbyggingar og gengið þannig frá þeim að notendum stafi ekki hætta af notkun raforkunnar til framleiðslu eða daglegra nota.
- geta gefið ráð um val raftækja og lýsingarbúnaðar.
- geta starfað við uppsetningu rafala, spennu- og dreifivirkja í raforkuverum.
- geta starfað við flutning raforkunnar frá orkuverum til notenda, línu- og jarðstrengjalagnir sem og við uppsetningu og tengingu spennuvirkja.
- geta annast uppsetningu og viðhald hverskonar raftækja, iðntölvustýringa og stýribúnaðar í iðnfyrirtækjum og iðjuverum landsins.
- geta veitt þjónustu og annast viðhald rafvéla og raftækja ásamt nýlögnum og rekstri rafkerfa í farartækjum á sjó og landi.
- þekkja kennilínur íhluta.
- geta annast viðhald gamalla raflagna og endurbætur á þeim.
- geta sett upp, tengt og gengið frá algengustu loftnetskerfum.
- geta sett upp kall- og merkjakerfi, aðvörunarkerfi, stillt þau og leiðbeint um notkun þeirra.
- geta gengið frá öllum innanhússlögnum fyrir síma og tölvukerfi, tengt endabúnað og gert viðeigandi mælingar til að kanna áreiðanleika kerfanna.
- þekkja forritanleg raflagnakerfi og geta forritað og gengið frá slíku kerfi á sjálfstæðan hátt og geta leiðbeint um notkun slíkra kerfa.
- þekkja rafeindabúnað sem notaður er til aflstýringa, þekkja tákn og teikningar rafeindabúnaðar, geta fundið bilanir og lagfært þær.
- geta notað margskonar mælitæki við störf sín, skilið teikningar og hannað raflagnir bæði við uppsetningu rafbúnaðar og við bilanaleit og viðhald.
- hafa þekkingu á ýmsum vélarhlutum þótt þeir gangi ekki fyrir rafmagni.