Störf rafiðnaðarmanna eru margvísleg. Allt frá því að leggja háspennulínur til þess að setja saman örmerki fyrir dýr. Rafvirkjar vinna mjög fjölbreytt störf í rafiðngeiranum. Þeir leggja rafmagn í nýbyggingar, setja upp rafmagnstöflur, dósir, tengla og rofa og lýsingu ásamt netkerfum. Þar sem tölvustýrð kerfi eru forrita þeir jafnframt kerfin. Rafvirkjar vinna mikið í iðnaði við rafvélar og stýringar, bæði við uppsetningar og viðhald.
Markmið rafvirkjabrautar er að búa nemendur undir að geta starfað sjálfstætt við almenn störf rafvirkja. Að loknu námi eiga nemendur að þekkja og kunna að vinna með helsta tækjabúnaði sem notaður er af rafvirkjum, geta lagt rafmagn í byggingar, unnið við stýringar og rafvélar. Nemendur verða færir um að starfa við framleiðslu og dreifingu raforku. Rafvirki á hæfniþrepi 3 býr yfir hæfni til að vinna sjálfstætt, veita ráðgjöf, gera ítarlegar tíma- og kostnaðaráætlanir sem og skila sinni vinnu í samræmi við væntingar. Hann hefur djúpan skilning á þeim búnaði, verkferlum og fræðum sem snúa að hans vinnu. Hann getur viðað að sér aukinni þekkingu í samræmi við þau verkefni sem fyrir liggja með því að nýta sér miðla og upplýsingar sem snúa að faginu og notað hina auknu þekkingu við störf sín.
Nemendur sem lokið hafa grunndeild rafiðna geta sótt um á rafvirkjabraut. Samhliða námi hefja nemendur samningsleið sem felur í sér störf í umsjón meistara. Meistari og nemi votta hæfniþrep sem áskilin eru í rafrænni ferilbók. Að lokinni útskrift og ferilbók öðlast neminn rétt á að þreyta sveinspróf.
Slóð á námsbraut í námskrá
Hægt er að sækja um með því að smella á þennan hlekk