Prófa- og verkefnareglur

Prófa- og verkefnareglur

Meginregla Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum er að nemendur beri ábyrgð á námi sínu og hafi vönduð vinnubrögð, heiðarleika og fagmennsku að leiðarljósi.
Í skólanum eru viðmið um heiðarleg vinnubrögð í námi. Ef nemandi er staðinn að því að brjóta neðangreindar reglur verður úrlausn hans ekki metin og telst hann fallinn í viðkomandi verkefni og/eða prófi. Upplýsingar um málið eru skráðar í athugasemdakerfi Innu. Ítrekuð brot geta leitt til brottvísunar úr skóla. Athugið að brot á reglum skólans fyrnast ekki á milli anna eða áfanga. Dæmi: ef nemandi brýtur af sér í einum áfanga á 1. önn og í öðrum á 3. önn teljast það tvö brot.

Prófareglur

  • Nemendur eiga ávallt að mæta á réttum tíma í próf. 
  • Nemendum ber að tilkynna forföll áður en próf hefst. Forföll skal staðfesta með vottorði.
  • Meðan próf stendur yfir skulu nemendur gæta þess vandlega að valda öðrum ekki ónæði.
  • Í rafrænum prófum er aðeins heimilt að nota þann hugbúnað/forrit sem er tilgreint af kennara. Nemendum er með öllu óheimilt að nota samskiptaforrit, samskiptatæki eða anna hugbúnað/forrit nema þann sem er tilgreindur meðan á próftöku stendur. Nemandi ber alfarið ábyrgð á að vista gögn reglulega og skila prófi inn tímalega.
  • Nemendum er óheimilt að hafa farsíma, iPod, snjallúr eða sambærileg tæki á sér í prófi og teljast þau til óleyfilegra gagna.
  • Í munnlegum prófum er nemendum óheimilt að ræða sín á milli eða á anna hátt skiptast á upplýsingum um efni prófs á meðan á því stendur.
  • Nemendur sem þurfa lengri próftíma, upplestur eða sérstakt umhverfi til að geta tekið próf þurfa að sækja um slíkt á Innu undir sérúrræði.
  • Sjúkrapróf má nemandi aðeins taka hafi hann skilað inn læknisvottorði eða hafi heimild til þess af öðrum ástæðum.
  • Öll frávik frá reglum þessum eru í höndum stjórnenda skólans.

Viðurlög við broti á ofangreindum reglum um prófatöku geta verið 0 fyrir prófið, 0 í áfanganum, áminnig og jafnvel brottrekstur úr skóla. Hér má sjá reglur skólans við brotum á prófareglum.

Verkefnareglur

  • Skólinn gerir þá kröfu til nemenda að öll verkefni sem þau skila séu þeirra eigið hugverk. Í því felst að nemendur vinni verkefnin sjálf frá grunni og taki aldrei upp texta eða vinnu annarra og setji fram sem sín eigin verk.
  • Nemendur eiga ávallt að vísa til heimilda sem nýttar eru við verkefnavinnu og gæta að því að ávallt sé farið eftir reglum um heimildanotkun.
  • Hvert verkefni sem skilað er inn skal vera einstakt. Með því er átt við að öll endurnýting verkefna, hvort heldur er innan áfanga, milli áfanga eða námsbrauta, er óheimil, nema annað sé tekið fram.
  • Verkefni í hópavinnu eiga að vera unnin af hópnum frá grunni og er allur hópurinn ábyrgur fyrir því að rétt vinnubrögð séu viðhöfð. Í hópaverkefnum er möguleiki á að skipta með sér verkum, þó þannig að vinnuframlag einstakra hópmeðlima í verkefninu séu sambærileg. Allur hópurinn er þó eftir sem áður ábyrgur fyrir heildarverkinu. 
  • Nemendum bera ábyrgð á sínu framlagi í öllu hópstarfi og bera ábyrgð á að framlag þeirra sé sambærilegt á við hina í hópnum. Kennari hefur heimild til að gefa einstaklingum í hópi mismunandi einkunn ef ljóst þykir að framlag þeirra hefur verið verulega ójafnt.
  • Skili nemandi sama einstaklingsverkefni og annar nemandi að hluta eða heild telst hann hafa brotið reglur skólans um verkefnaskil. Reglan gildir einnig ef hópur nemenda í samstarfsverkefni skilar sama hópverkefni og annar hópur að hluta eða heild.

Viðurlög við broti á ofangreindum reglum um verkefnavinnu geta verið 0 fyrir verkefnið, 0 í áfanganum, áminnig og jafnvel brottrekstur úr skóla. Hér má finna reglur skólans við brotum á verkefnareglum.