Haustönn 2020

Kæru nemendur
 
Nú líður að upphafi annarinnar og línur teknar að skýrast varðandi fyrirkomulag kennslunnar. Síðustu daga og vikur hafa stjórnendur unnið að því að setja saman bestu lausn svo hægt verði að kenna bæði í staðnámi og fjarnámi.
Það er ljóst að næstu mánuði og misseri munum við þurfa að lifa með mismiklum samkomutakmörkunum vegna Covid-19, því er rétt að skipuleggja skólastarf miðað við þá staðreynd.
 
Niðurstaðan er stundatafla sem gerir ráð fyrir blandaðri kennslu. Annars vegar verður staðbundin kennsla í skólanum þar sem nemendur mæta í kennslutíma hjá kennara í hverju fagi einu sinni í viku og hins vegar rafræn heimakennsla. Kennsla í áföngum getur verið með mismunandi hætti. Það þarf að huga að fjöldatakmörkunum í rýmum og sumir áfangar verða einhver blanda af fjarnámi og staðarnámi meðan aðrir geta verið nær eingöngu staðarnám eða fjarnám. Allt eftir eðli áfanga og fjöldatakmörkunum hverju sinni. Nemendur fá nánari upplýsingar varðandi fyrirkomulag kennslu þegar nær dregur skólabyrjun. Stundataflan verður aðgengileg á INNU í byrjun næstu viku og þá geta nemendur betur glöggvað sig á fyrirkomulaginu.
 
Við einsetjum okkur að nýta allt rými sem gefst til að taka á móti nemendum eins og kostur er en á sama tíma fara eftir núgildandi reglum sóttvarnarlæknis um framhaldsskóla og virða 1 metra regluna. Til þess að framkvæmdin gangi eftir þurfa nemendur að taka á sig töluverða ábyrgð hvað sóttvarnir varðar og hlýða fyrirmælum.
Skólanum hefur verið skipt upp í hólf og þurfa nemendur að nota mismunandi innganga til þess fara í hvert hólf. Í hverju hólfi verða aldrei fleiri en 100 einstaklingar (nemendur og starfsfólk) og mega nemendur ekki fara milli hólfa.  Í hverri kennslustofu verða um 12 nemendur.
 
Af þessum sökum verður upphaf haustannar með breyttu sniði:
Nýnemar (fæddir 2004 eða 2005) og eldri nemendur (fæddir 2003 eða fyrr) sem ekki hafa áður verið í  FÍV verða boðaðir í skólann í litlum hópum dagana 20. og 21. ágúst. Nánari upplýsingar um skipulag þessa daga hafa verið sendar til þessa hóps.
Opnað verður fyrir rafrænar töflubreytingar fimmtudaginn 20.ágúst.
 
Mánudaginn 24.ágúst hefst síðan kennsla samkvæmt stundatöflu þar sem kennt verður bæði rafrænt og í skólanum og því skipulagi sem sett verður upp. Nemendur fá nánari upplýsingar um það síðar.
 
Nemendur sem telja sig hafa málefnalegar ástæður fyrir því að mæta ekki í skólann eru beðnir um að hafa samband við Helgu Kristínu Kolbeins, skólameistara (helgak@fiv.is).
 
Munið að við verðum að sýna samstöðu, þolinmæði og seiglu til að takast á við breytt skólastarf. Þetta ástand mun reyna á okkur öll og við þurfum að lifa með veirunni og þeim tilmælum og fyrirmælum sem koma frá sóttvarnaryfirvöldum á hverjum tíma. Skólayfirvöld taka sóttvarnareglur mjög alvarlega og treysta því að nemendur skólans geri það einnig. Við förum samt sem áður bjartsýn inn í þessa önn en þurfum að vera tilbúin að breyta um takt ef reglurnar breytast.
Menntun, öryggi og velferð allra í FÍV verður ávallt í forgangi.
 
Hlökkum til að sjá ykkur
Starfsfólk FÍV