Erasmus verkefni ferð til Pisa í febrúar 2025

Ferðin var heldur betur skrautleg, en hún hófst á því að fluginu frá Íslandi til London var seinkað um tæpa sjö klukkutíma sem olli því að hópurinn hafði 10 mínútur til að ná fluginu til Pisa. Eftir frábæran hlaupasprett á flugvellinum varð hópurinn hins vegar að játa sig sigraðan og finna aðra lausn. Ryanair gat bjargað hópnum til Ítalíu eldsnemma morguninn eftir þannig að hópurinn gisti óvænt eina nótt á flugvallarhótelinu í Stansted. Daginn eftir var flogið til Bologna og tekin þaðan lest til Pisa þar sem ítölsku kennararnir tóku á móti hópnum með bros á vör, og skutluðu okkur beint í vinnuna.

Ítalski hópurinn hafði skipulagt þétta og fræðandi dagskrá. Meðal annars var farið á fyrirlestur í Sant Anna Háskólanum þar sem prófessor Roberto Buizza fór yfir hvernig loftlagsbreytingar eru mældar og greindar í veðurfræðakerfum heimsins. Farið var á fyrirlestur og í vettvangsferð á vegum almannavarnarnefndar Pisa. Þar var fjallað um vatnamál héraðsins, en vandamál héraðsins snúa einkum að stóraukinni úrkomu vegna loftlagsbreytinga. Borgin Pisa er sumstaðar allt að 4m undirsjávarmáli, miklar ár renna hjá borginni og hafa Ítalirnir sett upp fráveitukerfi með kröftugum dælum víðsvegar um héraðið til þess að beina vatnsrennslinu til sjávar og koma þannig í veg fyrir vatnstjón. Farið var í heimsókn í ráðhúsið í Pisa og hitt borgarstjórann sjálfan sem hélt ræðu um áherslur borgarstjórnar í vatns- og loftlagsmálum og færði svo hópnum gjafir í lokin. Hópurinn fékk einnig að fara í fræðsluferð í Fornskipa Safn Pisa með fornleifafræðingi. Þar var farið yfir sögu Pisa við árnar í kring, allt frá uppbyggingu svæðisins til nútímans. Einnig sáum við hina ýmsu fjársjóði sem hafa fundist í ánni s.s. tugir leirkerja frá tímum Forngrikkja, beinagrindur, verslunarskip og vörur Rómverja.

Verkefnavinnan gekk mjög vel og nemendur stóðu sig frábærlega eins og við mátti búast. En ferðin var ekki bara vinna, það var auðvitað verslað enda nóg af búðum í Pisa en flest allir voru sammála um að einn af hápunktum ferðarinnar var heimsókn hópsins til Flórens. Þann daginn fengu nemendur frjálsan tíma til að rölta um og skoða þessa stórglæsilegu og sögufrægu borg. Að lokinni ferð voru nemendur sammála um að þetta hafi verið svakaleg upplifun, mjög fræðandi og margir sögðust hafa áttað sig enn betur á því hversu gott við höfum það í Vestmannaeyjum.