Ferðin hófst með flugi til Malaga og þaðan lá leiðin beint til Sevilla, þar sem hópurinn gisti saman fyrstu nóttina. Í Erasmus-verkefnum er hefð fyrir því að nemendur dvelji heima hjá fjölskyldum jafnaldra sinna, og voru allir nemendur skólans mjög ánægðir með gistifjölskyldurnar sínar.
Spænski hópurinn hafði skipulagt fjölbreytta og fræðandi dagskrá þar sem nemendur unnu að verkefninu og fræddust enn frekar um efnið. Einnig var farið í tvær dagsferðir með hópana. Fyrst var farið í Doñana þjóðgarðinn, sem er á heimsminjaskrá UNESCO. Garðurinn er frægur fyrir setlög strandlengjunnar sem geyma upplýsingar um sögu loftlags svæðisins ásamt því að vera auðug af steingervingum, þar er einnig fjölbreytt vistkerfi og er garðurinn einstaklega mikilvægt farfuglasvæði. Þessi heimsókn var frábær, einstaklega fræðandi og ekki skemmdi veðrið fyrir, en það var 25 stiga hiti og heiðskírt. Nemendur og kennarar nutu dagsins, dýfðu tásunum í sjóinn og sumir stungu sér til sunds. Á heimleiðinni var komið við í litlum bæ, El Rocío og fengið sér hádegismat, en þessi bær er frægur meðal Spánverja, og nærri milljón pílgríma leggja leið sína þangað ár hvert. Íslendingarnir komu allir rjóðir í kinnum til baka til Sevilla í lok þessa dags.
Önnur dagsferðin var svo til Solnova Solar Power Station, eitt stærsta sólarorkuver í heimi, sem er staðsett rétt utan Sevilla. Verið, sem samanstendur af fimm sólarorkuverum með samtals afkastagetu upp á 150 MW, nýtir spegla og sólarhitaorku til rafmagnsframleiðslu. Það er tákn um sjálfbæra orkuvinnslu og vakti mikla athygli hópsins. Eftir að hafa skoðað verið var keyrt með hópinn aftur til Seville þar sem við heimsóttum Confederación Hidrográfica del Guadalquivir (CHG), stofnunina sem fer með stjórn yfir vatnaumdæmi Guadalquivir sem rennur í gegnum Sevilla. CHG sér um vatnsauðlindastjórnun, náttúruvernd og flóðvarnir á vatnasvæðinu og gegnir þar með mikilvægu hlutverki í sjálfbærni og verndun náttúru á svæðinu. Verkfræðingar CHG fræddu okkur um þeirra helstu hlutverk og fóru m.a. yfir hvernig mælitæki þeirra virka, áhrif þurrka-tímabila á vatnsbirgðir héraðsins, og viðbragðsáætlanir þeirra í kjölfar ofsarigninga.
Fræðslan þessa dagana var mikil og verkefnavinnan gekk afar vel. Nemendur skólanna náðu vel saman, margar skemmtilegar stundir á og utan skólatíma. Borgin Seville hefur uppá ótal margt að bjóða og Spánverjarnir voru einstaklega dugleg að kynna hópinn fyrir borginni og auðvitað matarmenningunni sinni. Á lokakvöldinu var viðurkenningarathöfn
fyrir vel unnin störf og sameiginlegur kvöldmatur í skólanum þar sem spænsku fjölskyldurnar komu með alls kyns gómsæta rétti. Á föstudeginum var ræs snemma stefnan tekin aftur á Malaga. Þar fékk hópurinn tíma til að skoða borgina og auðvitað versla áður en við flugum heim til Íslands og fengum frábært útsýni yfir eldgosið sem var þá í gangi. Það er óhætt að segja að hópurinn hafi komið til baka ríkur af reynslu, fróðleik og ómetanlegum minningum.
Hér má sjá fleiri myndir úr ferðinni