Vélvirkjun

Vélvirki er lögverndað starfsheiti og vélvirkjun er löggilt iðngrein. Markmið námsins er að gera nemendum kleift að takast á við þau viðfangsefni sem vélvirkjar inna af hendi, þ.e. uppsetningu, viðgerðir, viðhald, endurnýjun og þjónustu á hvers kyns vél- og tæknibúnaði og flutningakerfum í skipum, vinnslustöðvum, vinnuvélum, verksmiðjum, orkuverum og orkuveitum, skipulagningu fyrirbyggjandi viðhalds, eftirliti með ástandi vélbúnaðar og greiningu bilana. Námið samanstendur af bóklegu námi í skóla og verklegu námi bæði í skóla og á vinnustöðum, ásamt starfsþjálfun í fyrirtækjum. Nám sem fer fram á vinnustað er samtvinnað bóklega náminu út námstímann og hefur að markmiði að þjálfa nemendur í vinnuferlum, auka færni þeirra á vinnumarkaði, þjálfa samvinnu á vinnustað og auka getu þeirra til þess að takast á við raunverulegar aðstæður í fyrirtækjum. Námið tekur að jafnaði þrjú heil ár og við lok þess staðfesta nemendur kunnáttu sína og færni í sveinsprófi sem veitir rétt til starfa í iðninni og til inngöngu í nám til iðnmeistaraprófs.