VÉLS1AV04 - Vélstjórn 1

Lýsing

Vélstjórn 1

Einingafjöldi : 4

Þrep : 1

Í áfanganum öðlast nemendur þekkingu á uppbyggingu og virkni mismunandi vélagerða þar sem áhersla er lögð á uppbyggingu, eiginleika og notkun bulluvéla. Einnig er farið yfir íhluti og einingar sem brunavél er gerð úr og hlutverk þeirra. Þá er fjallað um véla- og lagnakerfi sem þjóna brunavélum. Nemendur þjálfast í notkun véla og vélakerfa, bæði í verklegri þjálfun og í vélhermi. Lögð er áhersla á að nemendur verði færir um að þjóna og stjórna vélbúnaði í minni skipum. Farið er yfir öryggismál, umgengni um vélar, ásamt hættum sem stafa af vélum og vélbúnaði. Kenna þarf áfangann samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni með viðeigandi vottun. Nám í áfanganum (og undanfarandi áföngum ef við á) skal samsvara þeim kröfum sem gerðar eru í tilteknum hlutum samþykktarinnar eins og nánar er tilgreint í tilvísanalista sem fylgir námsbrautarlýsingunni.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • vinnuhring tví- og fjórgengisvéla.
  • flokkun aflvéla eftir gerð, uppbyggingu og eldsneyti.
  • grundvallarhugmyndum að baki bulluvélinni, byggingu hennar og helstu íhlutum.
  • mismunandi uppbyggingu, notkun og eiginleikum hraðgengra og hæggengra bulluvéla.
  • mismunandi aðstreymi eldsneytis og lofts í dísilvél.
  • þeim kerfum sem þjóna vélum skipa, hlutverki þeirra og uppbyggingu í minni skipum.
  • kæliþörf brunavéla.
  • olíukerfi skipa og einstökum þáttum, frá daghylki að eldsneytisloka.
  • uppbyggingu á eldsneytisdælum og vinnumáta þeirra.

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • nafngreina helstu íhluti vélar og lýsa hlutverki þeirra.
  • lesa úr vélateikningum.
  • nota viðeigandi handverkfæri á réttan hátt.
  • ganga um vélar með tilliti til hreinlætis og öryggis.
  • búa til gátlista og undirbúa tvígengis- og fjórgengisskipsvélar fyrir gangsetningu og gangsetja þær.
  • ganga frá vél og vélarúmi eftir stöðvun og gera vélarúm frostklárt.

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • teikna upp vinnuhring tvígengis- og fjórgengisvéla og lýsa ferlinu.
  • rekja og teikna upp helstu vélakerfi.
  • stunda vinnu í vélarúmi skipa m.t.t. umgengni og öryggismála.
  • undirbúa dísilvél fyrir ræsingu og ræsa hana.
  • greina kerfisbundið bilanir í vél skips og bregðast við þeim á viðeigandi hátt.
  • lýsa virkni vélkerfa og samspili þeirra í keyrslu véla.