TEIK2AB04 - Teikningar og verklýsingar I - Múraraiðn
Lýsing
Teikningar og verkýsingar I - Múraraiðn
Einingafjöldi : 4
Þrep : 2
Í áfanganum læra nemendur um almenn grunnatriði byggingaruppdrátta með áherslu á steinsteypuvirki. Byrjað er á að fjalla um teiknistaðla og framsetningu á uppdráttum s.s. grunnmyndir, sneiðingar, lóðrétta og lárétta sérhluta, málsetningu, tilvísanir og textun. Nemendur fá þjálfun í að gera einfalda uppdrætti af steinsteyptu einbýlishúsi þar sem komið er inn á algengar útfærslur, hönnunarforsendur í byggingarreglugerð og stöðlum, verklýsingar, helstu fagheiti, teiknitákn m.m. Lögð er áhersla á að þjálfa notkun og skilning á hvers konar verkgögnum sem tengjast steypuvirkjum og sérhlutum múraraiðnar og teikningu rissmynda við útfærslur deililausna. Nemendur gera einfalda efnislista og kostnaðarútreikninga á grundvelli hönnunargagna. Megináherslan er á verkefnavinnu og mikilvægt er að nemendur þjálfist í sjálfstæðum vinnubrögðum við upplýsingaleit og úrvinnslu.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- almennum hönnunarforsendum steinsteypuvirkja.
- ákvæðum reglugerðar um byggingarefni húsa, gerð og burðarþol.
- íslenskum stöðlum um steinsteypu og steinsteypuvirki.
- tæknilegum útfærslum vegna álags og einangrunar.
- öllum gerðum uppdrátta og teikninga og öllum almennum teiknitáknum.
- fagheitum sem snerta almenna uppdrætti og teikningar.
- reglum um blaðstærðir, mælikvarða og teikniáhöld.
- teikniaðferðum og teiknireglum fyrir grunnmyndir og séruppdrætti.
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- styðjast við Rb‐blöð í upplýsingaleit og við gerð teikninga.
- rissa og teikna einfalda uppdrætti af steinsteyptu einbýlishúsi.
- lesa og skilja merkingar á teikningum og meðfylgjandi verklýsingar.
- gera einfalda efnislista og kostnaðarútreikninga á grundvelli teikninga.
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- lesa og vinna með uppdrætti og teikningar af steinsteypuvirkjum.
- gera uppdrætti af húsi og sýna deililausnir af sérhlutum múrsmíða.
- gera fríhendisrissmyndir af sérlausnum og sneiðingum.