STÝT2CR04 - Stýritækni 3

Lýsing

Stýritækni 3

Einingafjöldi : 4

Þrep : 2

Í áfanganum kynnast nemendur skynjaratækni, iðntölvum og loftstýringum. Þeir kynnast nokkrum gerðum af iðntölvum og notkun þeirra í iðnstýringum sem og tengingu þeirra við ýmsan jaðarbúnað. Megináhersla er lögð á að nemendur læri að skilja virkni og uppbyggingu iðntölva og fái undirstöðuþjálfun í forritun og notkun forritunartækja og forritunarhugbúnaðar fyrir smærri iðntölvur. Kynning er á loftstýringum og helstu einingum þeirra. Þá er lögð áhersla á að þeir læri gerð flæðimynda fyrir stýringar, fái æfingu í gerð teikninga af iðntölvum og tengimynda fyrir þær sem og þann búnað sem þeim tengist. Auk þessa fer fram verkefnavinna og verklegar æfingar þar sem nemendur brjóta viðfangsefni áfangans til mergjar, tengja, prófa, mæla og taka saman niðurstöður. Lögð er áhersla á notkun mælitækja til að finna tengivillur og bilanir. 

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • skynjaratækni með áherslu á virkni rýmdar-, span-, hita-, hæðar- og þrýstiskynjara.
  • helstu gerðum iðntölva, notkun þeirra í iðnstýringum og tengingu þeirra við ýmsan jaðarbúnað.
  • uppbyggingu og virkni á litlum iðntölvum.
  • gerð flæðimynda fyrir stýringar.
  • forritunarhugbúnaði fyrir iðntölvur.
  • helstu grunnskipunum í ladder-forritun.
  • helstu kostum og göllum við loftstýringar.
  • virkni og notkun á loftpressum, loftsíum, smurtækjum og öryggislokum.
  • virkni og notkun á einvirkum og tvívirkum lofttjökkum.
  • virkni og notkun á 2/2-, 3/2- og 5/2-lokum sem stýrt er handvirkt, með rafmagni, með lofti og vélrænt.
  • virkni og notkun á deyfistefnu-, tvíþrýsti- og einstefnulokum.

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • að nota spennugjafa, grunneiningar, stafrænar inn- og útgangseiningar.
  • að hanna í ladder-forritum, funksomblokkum eða sambærilegum forritum fyrir iðntölvur.
  • að teikna tengimyndir af iðntölvum og þeim búnaði sem tengist þeim, t.d rofum og segulliðum og tengja eftir teikningum.
  • tengingu og virkni loftstýringa.

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • framkvæma bilanaleit í iðntölvustýringum.
  • tengja iðntölvur og búnað sem tengist þeim á inn- og útgöngum.
  • tengja stýri- og kraftrásir skammhlaups-mótora.
  • hanna og tengja loftloka og lofttjakka.