Lýsing
Stýritækni 2
Einingafjöldi : 4
Þrep : 2
Í þessum áfanga er fjallað um grunnvirkni og notkun rofa og segulliða, rofa- og snertitækni kynnt. Fjallað er um virkni og notkun segulliða í stýrirásum og kraftrásum og tímaliða í stýrirásum. Farið er í undirstöðuatriði við gerð á einlínu- og fjöllínumyndum svo og tákn og staðla sem notaðir eru við gerð teikninga fyrir segulliðastýringar. Mikilvægt er að nemendur kynnist tölvuforriti til teikninga á rásum segulliða. Áhersla er lögð á verkefnavinnu og verklegar æfingar þar sem nemendur brjóta verkefni til mergjar, tengja, prófa og mæla og taka saman niðurstöður. Einnig er lögð áhersla á að nemendur nýti sér mælitæki til að finna tengivillur og bilanir.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- helstu stýrikerfum sem notuð eru í iðnstýringum.
- notkun og virkni á yfirálagsvörnum fyrir rafmótora, mótorvarrofa og varnarbúnað sem notaður er í tengslum við kraft- og stýrirásir.
- notkun og virkni endastoppsrofa, flotrofa og neyðarstoppsrofa.
- notkun og virkni á þrýstiliðum og segullokum.
- notkun á tengilistum og tengilistanúmerum.
- notkun á merkingum, þ.e. víra- og strengjamerkingum.
- tengingu stýribúnaðar við loft og glussa.
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- nota nokkrar ræsiaðferðir fyrir rafmótora.
- nota teikniforrit fyrir stýrirása- og kraftrásateikningar.
- leggja upp rás með varnarbúnaði og skynjurum.
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- framkvæma bilanaleit í segulliðastýringum.
- skilja upplýsingar af skiltum rafmótora.
- tengja stýri- og kraftrásir skammhlaups-mótora.
- setja upp og tengja rás með varnarbúnaði, rafvélum og skynjurum.