SJÁL2ÍH02 - Sjálboðastörf innan íþróttahreyfingarinnar

Lýsing

Sjálfboðastörf innan íþróttahreyfingarinnar

Einingafjöldi : 2

Þrep : 2

Markmiðið með þessum áfanga er að kynna nemendur fyrir sjálfboðaliðastörfum innan íþróttahreyfingarinnar og mikilvægi þeirra í samstarfi við Íþróttabandalag Vestmannaeyja (ÍBV). Það að sinna sjálfboðaliðastarfi hefur í för með sér ýmsan ávinning, markmiðið er að nemendur sem sitja þennan áfanga upplifi þann ávinning. Einstaklingar sem sinna sjálfboðaliðastarfi lýsa því að þátttaka þeirra hafi veitt þeim aukið sjálfstraust, bætt félagshæfni þeirra, kennt þeim að starfa í hóp og þau hlotið fjölbreytta reynslu á ýmsum sviðum sem nýtist þeim til framtíðar. Auk þess fylgir almenn ánægja af því að vera í félagsskap og félagsstarfi með fjölbreyttum hópi fólks.

Samfélagslega séð sýna sjálfboðaliðar virkni með því að ljá rödd sína, hjálpa fólki og vinna að umbótum auk þess að öðlast aukna innsýn inn í samfélagið og málefni sem starfið lýtur að. Þau gildi sem helst ráða því að fólk kýs að taka þátt í sjálfboðaliðastarfi eru samkennd, réttlætistilfinning, hjálpsemi og ábyrgð.

Áfanginn er bæði bóklegur og verklegur og munu nemendur m.a. kynnast stjórnskipulagi íþróttahreyfingarinnar og rekstri, skyldum og ábyrgð stjórnarfólks og þeim fjölbreyttu störfum sem sjálfboðaliðar vinna af hendi innan íþróttahreyfingarinnar á degi hverjum.

Áfanginn fer fram utan hefðbundinnar stundaskrár, þ.e. fræðsluerindin eru haldin seinni part dags og nemendur vinna verklega þátt áfangans á þeim tíma sem hentar þeim og verkefninu.

Markmið (þekking, leikni, hæfni):

  • Að nemandi hafi almenna þekkingu og skilning á mikilvægi sjálfboðaliðans í íþróttahreyfingunni
  • Að nemandi hafi almenna þekkingu og skilning á skipulagi íþróttahreyfingarinnar
  • Að nemandi þjálfist í að vinna í hóp og efli sína félagslegu færni
  • Að nemandi þjálfi þá þekkingu, það sjálfstraust og þá félagslegu færni sem þarf til að starfa í sjálfboðaliðaverkefnum innan íþróttahreyfingarinnar í framtíðinni
  • Að nemandi auki hæfni sína í að vinna eftir ákveðnu verklagi sem og aðlögunarhæfni sína að ólíkum aðstæðum og ólíkum hópum