SAGA1KV05 - Sagan í kvikmyndum

Lýsing

Kvikmyndir hafa oft mikil áhrif á það hvernig við í samtímanum upplifum fortíðina og eiga það til að móta með afgerandi hætti viðhorf okkar til þeirra sögulegu atburða sem þær fjalla um. Í áfanganum, þar sem nemendur munu horfa á valdar sögulegar kvikmyndir, verður fjallað um það hvernig einstaka kvikmyndir endurspegla þá sögu sem þær fjalla um, þær verða settar í sögulegt samhengi og rýnt verður með gagnrýnum hætti í sannleiksgildi kvikmyndanna, m.a. með umfjöllun um það hvernig kvikmyndir eru notaðar í pólitískum tilgangi. Í samráði við kennara velja nemendur 4 - 5 afmörkuð söguleg þemu sem tekin verða til umfjöllunar í áfanganum og valdar kvikmyndir um hvert viðfangsefni verða sýndar og teknar til gagnrýninnar umfjöllunar í tímum. Nemendum verður úthlutað lesefni með sagnfræðilegri umfjöllun um einstök þemu til þess að auka sögulega þekkingu þeirra. Lessefnið er undirstaða þess að nemendur geti fjallað um einstaka kvikmyndir og þau sögulegu og pólitísku viðhorf sem þær endurspegla til áhorfandans. Markmið áfangans er að dýpka söguþekkingu nemenda og efla hæfni þeirra til gagnrýninnar umfjöllunar um söguna og hvernig henni er miðlað í afþreyingarefni samtímans. Áfanginn er símatsáfangi. Námsmat mun byggjast á ástundun og verkefnavinnu nemenda. Unnin verða einstaklings- og hópverkefni um efni einstakra kvikmynda og sögulegan bakgrunn þeirra. 

Slóð á áfanga í námskrá