RÖKR3VB04 - Rökrásir 1 - grunnáfangi

Lýsing

Rökrásir 1 : grunnáfangi

Einingafjöldi : 4

Þrep : 3

Nemendur öðlast undirstöðuþekkingu í gerð rökrása og fá þjálfun í hönnun og greiningu á einföldum rökrásum, tengingum og forritun þeirra. Þeir þjálfast í að setja saman og tengja rökrásahlið fyrir ákveðna virkni, skrifa formúlu samsettrar rásar og prófa virkni hennar. Nemendur öðlast þekkingu og skilning á því hvernig hægt er að byggja upp rökrásavirkni í iðntölvum og forritanlegum rökrásum. Þeir kynnast hugtökunum forrit (program), stigarit (ladder) og rim (network) og fá þjálfun í að setja upp einfalda stýringu í tölvunni og þjálfun í að tengja búnað við inn- og útganga. Kenna þarf áfangann samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni með viðeigandi vottun. Nám í áfanganum (og undanfarandi áföngum ef við á) skal samsvara þeim kröfum sem gerðar eru í tilteknum hlutum samþykktarinnar eins og nánar er tilgreint í tilvísanalista sem fylgir námsbrautarlýsingunni.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • helstu hugtökum stafrænnar tækni.
  • grunnrökrásahliðum, OR, AND og NOT.
  • rökrásahliðum NOR og NAND.
  • hvernig hægt er að nota NOR og/eða NAND hlið til að fá fram grunnvirknina, OR, AND og NOT.
  • mismunandi talnakerfum, einkum tvítölukerfi, oktan og hexadecimal.
  • samrásum (IC-circuit) með rökrásahliðum (C-MOS eða TTL).
  • grunnskipunum í C og C++ forritun.

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • lesa virkni einfaldra rökrása.
  • hanna rökrás út frá skilyrtri virkni.
  • útskýra grunnrökrásahlið og rökrásahlið með rofahliðstæðunni og setja upp sannleikatöflu þeirra og bólskar (Boolean) formúlur.
  • bera saman mismunandi talnakerfi, einkum tvítölukerfi, oktan og hexadecimal við tugakerfið.
  • tengja og prófa samrásir með rökrásahliðum.
  • forrita einfaldar örgjörvarásir.

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • skrifa formúlur í rökrásavirkni og vinna í hermisforritum.
  • nota sannleikstöflur og bólskar jöfnur til að skilgreina virkni rökrása.
  • setja upp einfaldar stýringar í iðntölvum og örgjörvarásum.
  • tengja búnað við inn- og útganga iðntölvu.
  • teikna stigarit eftir: a) formúlu, b) segulliðarás c) textalýsingu.
  • forrita örtölvukerfi sem stýra einföldum ferlum.