MLSU2VB03 - Málmsuða 2 - TIG-MIG-MAG, plasmaskurður. Grunnáfangi
Lýsing
Málmsuða 2 : TIG-MIG-MAG, plasmaskurður, grunnáfangi
Einingafjöldi : 3
Þrep : 2
Markmið þessa áfanga er að breikka þekkingargrunn nemenda og auka færni þeirra á sviði málmsuðu, einkum að því er varðar beitingu hlífðargass við suðu á mismunandi tegundum málma. Nemendur skulu öðlast þjálfun í suðu með hlífðargasi (argon, blandgas) á járni og öðrum málmum (ryðfríu stáli og áli). Kenna þarf áfangann samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni með viðeigandi vottun. Nám í áfanganum (og undanfarandi áföngum ef við á) skal samsvara þeim kröfum sem gerðar eru í tilteknum hlutum samþykktarinnar eins og nánar er tilgreint í tilvísanalista sem fylgir námsbrautar-lýsingunni.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- suðu með hlífðargasi.
- argon- og blandgasi á stáli, ryðfríu stáli og áli með TIG, MIG og MAG suðutækjum.
- MIG-MAG suðu á beinum fleti, lóðrétt-stígandi og lóðrétt-fallandi kverksuðu og uppundirsuðu.
- TIG-suðu í kverk á tveimur ryðfríum plötum.
- TIG-suðu á ryðfríum prófíl.
- TIG-suðu á svörtum rörum.
- skurði á ýmsum málmum með plasmaskurðarvélum.
Leikniviðmið
Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:
- rafsjóða í ýmsum suðustellingum með MIG-MAG rafsuðutækjum.
- rafsjóða ál, svart og ryðfrítt stál með TIG-suðu.
- skera málma með plasmavélum.
Hæfniviðmið
Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:
- meta við hvaða aðstæður henti að beita MIG-MAG eða TIG-suðu.
- meta hvaða forsendur þurfi að vera til staðar til þess að MIG-MAG eða TIG suður henti við samtengingar.
- meta hvaða tæki og búnaður þarf að vera til staðar við plasmaskurð og hvernær henti að beita plasmaskurði.