JARÐ2JK05 - Jarðfræði Íslands og kortalestur

Lýsing

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur öðlist skilning á samspili innrænna og útrænna afla sem móta Jörðina. Fræðileg umfjöllun greinarinnar verður tengd við þau ummerki sem hvarvetna eru sýnileg í landslaginu í kringum okkur og þannig reynt að skapa áhuga og skilning á umhverfinu og notagildi jarðfræðiþekkingar í leik og starfi. Nemendur læra hversvegna og hvernig eldvirkni, jarðskjálftavirkni og jarðhitavirkni dreifist um Jörðina. Eldvirkni og jarðskjálftavirkni á Íslandi er skoðuð með gleraugum fræðigreinarinnar en einnig út frá því hvað ber að varast. Farið er í muninn á lág- og háhitasvæðum, mismunandi nýtingarmöguleika, mengunarhættu og sjálfbærni jarðhitakerfa. Einnig tengsl vatnsorkuvinnslu og vatnabúskap landsins við þróun jökla, veðurfar og landmótun. Nemendur læra um orkuauðlindir Íslands, nýtingu orkugjafa, umhverfisáhrif og endurnýjanleika. Við verkefnavinnu er lögð áhersla á að nemendur kynnist mismunandi tegundum korta og loftmynda, læri að lesa þau og skilja. Jafnframt að nemendur læri að lesa íslenskt landslag út frá jarðfræðilegum fyrirbrigðum og einkennum landmótunar. 

Slóð á áfanga í námskrá