IÐTE1VB05 - Iðnteikning 1 - grunnur

Lýsing

Iðnteikning 1 – grunnur

Einingafjöldi : 4

Þrep : 1

Í áfanganum er lögð áhersla á að nemendur öðlist almenna undirstöðuþekkingu og þjálfun í teiknifræðum. Áfanginn skiptist í tvo megin efnisþætti. Í fyrri efnisþætti er fjallað um fallmyndun, en í þeim seinni flatarteikningu og yfirborðsútflatninga. Gert er ráð fyrir að nemendur öðlist færni í lestri og gerð vinnuteikninga, gerð flatarmynda og útflatninga. Nemendur skulu öðlast færni í meðferð og notkun mæli- og teikniáhalda, myndrænni vinnu með viðfangsefni starfsgreina, lestri teikninga og fá grunnþjálfun í gerð vinnuteikninga og útflatninga. Áfanginn er undirbúningur fyrir fagbundið nám í teiknifræðum og lestri vinnuteikninga. Kenna þarf áfangann samkvæmt STCW alþjóðasamþykktinni með viðeigandi vottun. Nám í áfanganum (og undanfarandi áföngum ef við á) skal samsvara þeim kröfum sem gerðar eru í tilteknum hlutum samþykktarinnar eins og nánar er tilgreint í tilvísanalista sem fylgir námsbrautarlýsingunni.

Þekkingarviðmið

Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:

  • upplýsingamiðlun og tæknilegum teikningum.
  • hornréttum fallmyndum ásamt sneiðmyndum af einföldum hlutum.
  • málsetningu og hlutföllum teikning.
  • þrívíðum teikningum og sönnum stærðum skurðflata.
  • reglum, stöðlum og venjum sem gilda um vinnuteikningar.

Leikniviðmið

Nemandi skal hafa öðlast leikni í að:

  • nota teikni- og mæliáhöld.
  • gera vinnuteikningar með teikniáhöldum af einföldum hlutum með hornréttum fallmyndum og sneiðmyndum.
  • hugsa af nákvæmni um og vinna myndrænt með viðfangsefni starfsgreina, s.s. hönnunar og iðngreina.
  • gera útflatningsmyndir og finna raunstærðir skurðarflata á sívalningum, keilum og fleiri þrívíðum formum.
  • skipuleggja, árita og ganga frá einföldum tæknilegum teikningum og miðla upplýsingum á skilvirkan hátt.

Hæfniviðmið

Nemandi skal geta hagnýtt þá almennu þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að:

  • lesa teikningar.
  • vinna einfaldar tæknilegar vinnuteikningar og einfaldar þrívíðar teikningar.
  • finna sannar stærðir útflatninga og teikna þrívíð form og finna sannar stærðir skurðarflata.
  • undirbúa sig fyrir fagbundið teikninám og annað fagnám starfsgreina, s.s. hönnunar- og iðngreina.