FRKE2PL04 - Frárennsliskerfi - bóklegt
Í áfanganum læra nemendur um frárennsliskerfi í byggingum með áherslu á hefðbundið sjálfrennsliskerfi en auk þess er fjallað um undirþrýstings- og dælukerfi. Gerð er grein fyrir lagnaefnum og öllum gerðum tengja og tengiaðferða. Skoðaðar eru lagnaleiðir sem til greina koma, fjallað er um einangrun frárennslislagna og nauðsyn þess að dempa hljóðburð. Lögð er áhersla á réttar festingar og skoðaðar ýmsar gerðir þeirra. Nemendur læra um mikilvægi innloftunar í frárennsliskerfi með innloftunarrörum eða undirþrýstingsventlum. Sérstaklega er fjallað um votrými og öruggan frágang þeirra í samvinnu við aðra iðnaðarmenn, einkum frágang gólflása. Nemendur setja saman frárennslislagnir úr mismunandi lagnaefnum og staðsetja frárennslisstúta miðað við teikningar og mismunandi tæki. Í því sambandi er farið yfir grunnatriði mælinga á byggingastað. Nemendur vinna með lagnateikningar og læra að reikna út réttan promil halla á lagnir og merkja inn á teikningar. Einnig er fjallað um rotþrær, hvernig eigi að setja þær niður og tengja.
Slóð á áfanga í námskrá