Áfanginn fjallar um stöðu kynjanna og staðalmyndir í samfélaginu út frá helstu kenningum kynjafræðinnar og tengingu við mannréttindi í lýðræðissamfélögum á Vesturlöndum. Fjallað er um kynferði sem félagslegan áhrifaþátt og tengingu við hugtök eins og jafnrétti, réttlæti, karlmennsku/kvenmennsku, fötlun, klám, kynbundið ofbeldi, lýðræði og fleira. Rýnt verður í ýmsar birtingarmyndir kynjaskekkju, ýmis önnur svið mismununar og rökrætt hvaða hlutverkum mannréttindi eiga að þjóna í samfélaginu. Markmið áfangans er að kynna og nota kenningar innan kynjafræðinnar til aukins skilnings á innviðum og hugmyndafræði samfélagsins og æfa um leið rökræður og sjálfstæða skoðanamyndun um málefni sem snúa að þeim. Lögð er áhersla á umræður og lýðræðislega nálgun í kennslunni þar sem nemendur eru krafðir um þátttöku og áhrif á efnisþætti áfangans. Áfanginn byggir á virkni og þátttöku nemenda þar sem reynir á sjálfskoðun og greiningu á umhverfi sínu með hliðsjón af kenningum kynjafræðinnar.