DANS2MV05 - Danmörk og Kaupmannahöfn - Menning og venjur
Í áfanganum er lögð áhersla á að efla hjá nemandanum alla þætti tungumálsins, að efla sjálfsöryggi hans svo og sjálfstæði í vinnubrögðum. Nemendur vinna með 3-4 þemu, en hver og einn velur mikið til sjálfur sitt viðfangsefni og hvernig unnið er með það hverju sinni. Nemendur skipuleggja ferð til Kaupmannahafnar sem verður farin ef áhugi er til staðar. Kennslan fer fram á dönsku. Tal: Áhersla er lögð á að nemendur þjálfist í réttum framburði tungumálsins. Nemendur kynna munnlega verkefni sem búið er að vinna með og svara fyrirspurnum frá kennara og samnemendum. Nemendur vinna ýmis önnur sjálfstæð munnleg verkefni einir eða í litlum hópum. Nemendur færa nánari rök fyrir máli sínu í tengslum við verkefni sín í samtali við kennara. Hlustun: Hlustun byggist aðallega á að horfa á alls konar sjónvarpsþætti og annað efni á netinu. Ritun: Nemendur skrifa ýmiss konar texta eins og t.d. smásögur, blaðagreinar og skoðanir sínar á málefnum til birtingar á netmiðlum eða í dagblöðum. Lestur: Nemendur velja og lesa eina skáldsögu, nokkrar smásögur og ýmiss konar texta af neti þegar er verið að afla sér upplýsinga t.d. í sambandi við þemavinnu.