Í áfanganum er lögð áhersla á að nemandi þekki aðferðir til að koma auga á viðskiptatækifæri og geti gert viðskiptaáætlun, markaðsgreiningu og markaðsáætlun. Nemandinn kynnist því hvað þarf til að stofna fyrirtæki og hefja rekstur. Kynnist mikilvægi góðs undirbúnings við stofnun fyrirtækis, læri um markmiðasetningu, læri að gera verkáætlun og að mæla hvort markmiðum sé náð. Fjallað verður um lög og reglur við stofnun fyrirtækja og helstu rekstrarform. Farið verður í grunnatriði sem hafa verður í huga til þess að koma vöru eða viðskiptahugmynd á framfæri. Nemandi lærir um mikilvægi vöruþróunar og þróun þjónustu við viðskiptavini, vinnur SVÓT greiningu á viðskiptahugmynd sinni. Áhersla er lögð á markaðsfræði, að auka skilning nemandans á gildi markaðsstarfs fyrir neytendur, fyrirtæki og samfélagið í heild. Fjallað er um breyttar áherslur í markaðssetningu með aukinni tækni. Áhersla er lögð á markaðsetningu á netinu og jákvæðar og neikvæðar afleiðingar þeirrar þróunar. Fjallað er um söluráðana og samval þeirra og mikilvægi kynningaráætlunar. Æskilegt er að gefa nemandanum kost á að kynnast vinnubrögðum í markaðssetningu með því að vinna að hagnýtum kynningarverkefnum á því sviði í nærsamfélaginu. Nemendur læra um gerð verklýsinga, útboð og tilboð. Fjallað er um mikilvægi þess að hafa sjálfbærni að leiðarljósi allt frá upphafi rekstrar og að fyrirtækið móti sér starfsmannastefnu sem m.a. innheldur jafnrétti einstaklinga. Nemandi lærir um viðskiptasiðferði og gildi þess fyrir fyrirtækið, starfsfólk, viðskiptavini og samfélagið allt. Lögð er áhersla á gagnrýna hugsun og sjálfstæð vinnubrögð og að nemendur tengi námsefnið við sína atvinnugrein. Námið felst í verkefnavinnu og umræðum á kennsluvef.
Þekkingarviðmið
Nemandi skal hafa öðlast þekkingu og skilning á:
- mismunandi rekstrarformum og geti metið hvaða rekstrarform hentar rekstri hans best.
- hvernig farið er að því að stofna fyrirtæki og hvaða gögnum ber að standa skil á gagnvart hinu opinbera.
- þróun viðskiptahugmyndar/vöru eða þjónustu og ferlinu við að stofna og reka fyrirtæki.
- viti hvar hægt er að leita eftir stuðningi, ráðgjöf og fjármagni við stofnun fyrirtækis.
- markmiðasetningu og hversu mikilvægt er að setja sér markmið.
- viðskiptaáætlun (markaðsmál, fjármál, starfsmannahald, skipulag).
- þýðingu markaðsstarfs fyrir fyrirtæki og samfélag.
- mikilvægi samkeppnisgreiningar og markaðshlutunar í öllu markaðsstarfi.
- mikilvægi ímyndar vöru og fyrirtækis.
- hugtökum varðandi vörur og vöruþróun.
- samvali söluráða og kaupvenjum neytenda.
- breytingum í markaðsstarfi og neikvæðum áhrifum markaðsstarfs.
- félagslegri og samfélagslegri ábyrgð og mikilvægi sjálfbærni í rekstri.
- þeim ávinningi á vinnustað þar sem jafnrétti er haft að leiðarljósi.
- góðu og samfélagslega viðurkenndum gildum í viðskiptasiðferði.
- verklýsingum, útboðum og tilboðsgerð.
- uppsetningu og frágangi verklýsinga og tilboða.