LANF3ÍS05 - Náttúrulandfræði

Ísland

Einingafjöldi: 5
Þrep: 3
Forkröfur: 5 einingar í jarðfræði á 2. þrepi og 5 einingar í líffræði á 2. þrepi.
Í áfanganum er fjallað um landfræði sem fræðigrein, notagildi hennar og tengsl við aðrar fræðigreinar. Sjónum er annars vegar beint að náttúrulandfræði þar sem fengist er við jarðveg, gróður, veðurfar og landmótun og hins vegar að mannvistarlandfræði þar sem m.a. er lögð áhersla á skipulag umhverfisins og greiningu ólíkra hagsmuna sem tengjast nýtingu lands. Fjallað verður um náttúrulegar hringrásir efna og orku, geislunarbúskap Jarðar, vindakerfi og loftslagsbelti. Farið verður í myndun jarðvegs, eiginleika hans, útbreiðslu, rof og mengun. Fjallað verður um útbreiðslu lífríkis og áhrifaþætti, búsvæðabelti, líffræðilega fjölbreytni og verndun lífríkis. Rætt verður um auðlindanýtingu og umhverfisvandamál sem tengjast röskun á hringrásum. Loks verður fjallað um nýtingu umhverfisins og skipulag landnotkunar og samgangna. Áhersla er lögð á að nemendur vinni sjálfstætt og með öðrum sérhæfð verkefni sem krefjast upplýsingaöflunar með margs konar miðlum. Jafnframt að þeir æfist í að miðla niðurstöðum á gagnrýninn og skapandi hátt.

Þekkingarviðmið

  • helstu hugtökum sem varða náttúrulegar hringrásir, geislunarbúskap, vinda- og loftslagsbelti, jarðveg, útbreiðslu lífríkis, auðlindanýtingu og skipulag
  • náttúrulegum hringrásum, s.s. hringrás vatns og annarra efna og lífsferlum lífvera
  • landnýtingu og áhrifaþáttum á búsetu

Leikniviðmið

  • nota fjölbreytta miðla og hjálpartæki til að leita að og setja fram landfræðilegar upplýsingar
  • lesa upplýsingar úr mismunandi tegundum korta, sem sýna t.d. loftslag, gróður, jarðveg og framleiðslu
  • tjá sig skipulega og gagnrýnið bæði munnlega og skriflega um landfræðileg efni

Hæfnisviðmið

  • skilja náttúrulegar hringrásir og tengsl þeirra við umhverfisvandamál
  • gera sér grein fyrir áhrifum veðurfars og loftslagsbreytingum á jarðveg, gróður, nýtingu lands og auðlinda
  • gera sér grein fyrir áhrifum mannsins á náttúru og umhverfi
  • skilja áhrif landnýtingar á lífríki og jarðveg, leggja mat á gildi þeirra og túlka sögulega framvindu og núverandi aðstæður
  • átta sig á samspili landnýtingar og búsetumynsturs
  • skilja mikilvægi þess að landnýting, samgöngur og samgöngumannvirki séu hagkvæm, sinni þörfum allra þjóðfélagshópa og að tillit sé tekið til áhrifa á heilsu, umhverfi og samfélag
Nánari upplýsingar á námskrá.is